Innlent

Undirbúið í langan tíma

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. Vísir/GVA
Embætti héraðssaksóknara var um langa hríð með aðgerðir í undirbúningi vegna stórfelldra brota tveggja verktaka á höfuðborgarsvæðinu.

Níu manns voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum héraðssaksóknara og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi á þriðjudag vegna málsins. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir sex hinna handteknu og féllst héraðsdómur á kröfuna yfir fimm þeirra.

Undirbúningurinn gerði það að verkum að kallað var til mansalsteymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að taka þátt í aðgerðum og hefja eftirgrennslan um hvort að um mansal gæti verið að ræða.

„Það var vitað eitt og annað áður en farið var af stað. Það sem var vitað gaf tilefni til þess að kalla þá til og þær aðgerðir voru ekki hluti af aðgerðum okkar sem varða brot á skattalögum og bókhaldsbrot. Síðan er spurning um fjárdrátt, peningaþvætti og skjalafals. Rannsókn á eftir að leiða í ljós hversu mörg brot hafa verið framin,“ segir Ólafur Hauksson héraðssaksóknari.

Ólafur segir of snemmt að setja fram kenningar um skipulagða glæpastarfsemi. „Það er ekki rétt að vera með fullyrðingar á þessu stigi og of snemmt að setja fram slíkar kenningar.“

Ólafur segir aðgerðir lögreglunnar hafa verið gerðar á sama tíma. „Þetta var stóraðgerð, fjörutíu lögreglumenn tóku þátt í henni auk sérfræðinga skattrannsóknarstjóra og sérfræðingum í mansali.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×