Enski boltinn

Gylfi skoraði í frábærri endurkomu Swansea | Sjáðu mark Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Swansea bjargaði dýrmætu stigi og fjarlægðist fallssvæði ensku úrvalsdeildarinnar enn frekar þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Stoke á útivelli.

Stoke komst 2-0 yfir með mörkum þeirra Ibrahim Affelay á þrettándu mínútum og Bojan Krkic þegar lítið var liðið af síðari hálfleik.

En endurkoman hófst hjá Swansea þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði glæsilegt mark með skoti utan teigs á 68. mínútu.

Þetta var tíunda deildarmark Gylfa Þórs á tímabilinu en hann er þar með jafn Marko Arnautovic í tíunda sæti markalista ensku úrvalsdeildarinnar.

Alberto Paloschi skoraði svo jöfnunarmark Swansea stuttu síðar og varð jafntefli niðurstaðan.

Swansea er nú komið með 37 stig og er tíu stigum frá fallsæti. Liðið hefur aðeins tapað einum leik af síðustu fimm og er það ekki síst góðri frammistöðu Gylfa Þórs að þakka.

Stoke er í áttunda sæti deildarinnar með 47 stig en liðið hefur sömuleiðis verið á góðu róli og aðeins tapað einum af síðustu sjö leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×