Fótbolti

Kolbeinn og félagar duttu út úr bikarnum fyrir B-deildarliði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Vísir/AFP
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Nantes duttu út úr átta liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í kvöld eftir 3-2 tap í framlengdum leik á móti B-deildarliði Sochaux.

Nantes var á leiðinni í undanúrslitin þegar Moussa Sao jafnaði metin á 87. mínútu og tryggði Sochaux framlengingu. Sochaux skoraði síðan tvö mörk í framlengingunni, fyrst Sekou Cissé og svo Moussa Sao aftur.

Adryan minnkaði muninn fyrir Nantes fjórum mínútum fyrir loka framlengingarinnar en skaðinn var skeður og liðið klúðraði góðu tækifæri til að komast í undanúrslit franska bikarsins.

Guillaume Gillet hafði komið Nantes í 1-0 strax á 5. mínútu og liðið var því yfir í 82 mínútur. Kolbeinn Sigþórsson byrjaði á varamannabekknum en kom inná á 72. mínútu leiksins. Nantes fékk því á sig þrjú mörk eftir að hann kom inná völlinn.

Sochaux-liðið var þarna að slá þriðja A-deildarliðið út úr bikarnum í ár en áður höfðu Bastia og Monakó tapað fyrir liðinu í 32 og 16 liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×