Rio Ferdinand, miðvörður QPR og fyrrverandi landsliðsmaður Englands í fótbolta, segist enn bera virðingu fyrir John Terry, fyrirliða Chelsea.
Þessir fyrrverandi samherjar hjá enska landsliðinu talast ekki lengur við eftir að John Terry beitti Anton Ferdinand, bróður Rio, kynþáttaníði í leik QPR og Chelsea fyrir fjórum árum.
Rio skrifaði í ævisögu sína sem gefin var út í fyrra að það væri ómögulegt að fyrirgefa það sem gerðist þrátt fyrir að Terry hafi verið fundinn saklaus.
„Þó okkur komi ekki saman lengur þýðir það ekki að ég hef tapað virðingunni fyrir Terry sem fótboltamanni,“ skrifar Rio í pistil sinn í götublaðinu The Sun.
„Frammistaða hans fyrir Chelsea á þessari leiktíð hefur verið stórkostleg og það segi ég óhræddur. John ákvað að hætta spila fyrir England og Chelsea nýtur þess.“
„John hefur komist að því eins og ég gerði hversu gott það er að yfirgefa landsliðið þegar maður eldist. Það gefur líkamanum betra tækifæri á að halda sér góðum langt inn á fertugsaldurinn,“ segir Rio Ferdinand.
