Enski boltinn

Gomis tryggði Swansea aftur sigur á Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gomis fagnar sigurmarki sínu.
Gomis fagnar sigurmarki sínu. vísir/getty
Swansea varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna Arsenal í ensku úrvalsdeildinni síðan Tottenham bar sigurorð af nágrönnum sínum 7. febrúar síðastliðinn. Lokatölur 0-1, Swansea í vil sem vann báða leiki liðanna á tímabilinu.

Gylfi Þór Sigurðsson, sem skoraði glæsilegt mark í fyrri leik liðanna, var í byrjunarliði Swansea og lék allan leikinn.

Arsenal var miklu meira með boltann í fyrri hálfleik en náði ekki einu einasta skoti á markið.

Staðan var markalaus í hálfleik sem kom ekki mikið á óvart í ljósi þess að í síðustu sjö leikjum þessara liða hefur aðeins eitt mark verið skorað í fyrri hálfleik en 18 í þeim seinni.

Leikurinn opnaðist meira í seinni hálfleik en mörkin létu á sér standa.

Skytturnar juku pressuna eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og Lukasz Fabianski, fyrrverandi leikmaður Arsenal, þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum í marki Swansea.

En það voru gestirnir frá Wales sem gerðu eina mark leiksins. Þar var á ferðinni varamaðurinn Bafetimbi Gomis á 85. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Jefferson Montero.

Frakkinn skoraði einnig sigurmarkið í fyrri leik liðanna, með skalla eftir sendingu frá Montero. Endurtekið efni í viðureignum þessara liða.

Swansea er nú aðeins einu stigi frá Southampton í 7. sæti deildarinnar en Arsenal er enn í því þriðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×