Fótbolti

Vestsjælland fallið úr dönsku deildinni

Eggert Gunnþór Jónsson og félagar urðu að sætta sig við fall.
Eggert Gunnþór Jónsson og félagar urðu að sætta sig við fall. vísir/getty
Næstsíðusta umferðin í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var leikin í dag og komu nokkrir Íslendingar við sögu. Mesta spennan var í leik Esbjerg og Vestsjælland en þessi lið börðust um sæti í deildinni.

Íslendingaliðið Vestsjælland þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að eiga von um að spila í efstu deild á næstu leiktíð en með sigri myndi Esbjerg bjarga sér frá falli.

Svo fór að Esbjerg marði sigur með marki í uppbótartíma en lokatölur urðu 2-1 og Vestsjælland því fallið. Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn í liði Vestsjælland en Frederik Schram sat á bekknum.

Randers gerði 1-1 jafntefli við Bröndby þar sem Theódór Elmar Bjarnason lék allan leikinn í liði Randers. Ögmundur Kristinsson sat á bekknum en hann mun að öllum líkindum yfirgefa Randers í sumar. Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Bröndby.

Ari Freyr Skúlason og Hallgrímur Jónasson voru báðir í byrjunarliði OB sem gerði jafntefli við Hobro á útivelli. Ari lék allan leikinn en Hallgrímur fór af velli á 59. mínútu.

Þrír Íslendingar komu við sögu í leik Sönderjyske og FC Köbenhavn sem endaði með 2-1 sigri Kaupmannahafnarliðsins. Rúrik Gíslason og Björn Bergmann Sigurðarson léku allan leikinn með FC Köbenhavn en Baldur Sigurðsson fór af velli á 52. mínútu í liði Sönderjyske.

Nordsjælland, liðið sem Ólafur Kristjánsson þjálfar, vann 1-0 sigur á meisturunum í Midtjylland. Adam Örn Arnarson lék allan leikinn fyrir Nordsjælland, Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliðinu en fór af velli og þeir Guðjón Baldvinsson og Rúnar Alex Rúnarsson komu ekkert við sögu.

Þá vann AaB 2-1 sigur á Silkeborg á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×