Enski boltinn

Aston Villa að ganga frá kaupum á ungstirni frá Barcelona

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Traore í leik með Barcelona.
Traore í leik með Barcelona. Vísir/Getty
Aston Villa mun að öllum líkindum ganga frá kaupunum á Adama Traore, ungstirni Barcelona, í dag en talið er að Aston Villa greiði allt að 12 milljónir punda fyrir hann. Samkvæmt sömu heimildum hefur hinn 19 árs gamli Traore samþykkt þriggja ára samning hjá Aston Villa.

Miklar væntingar voru bundnar við Traore á sínum tíma en hann lék fyrsta leik sinn fyrir Börsunga þegar hann var aðeins 17 ára gamall er hann kom inná fyrir Neymar í 4-0 sigri á Granada á Nou Camp.

Þremur dögum síðar lék hann fyrsta leik sinn í Meistaradeild Evrópu þegar hann lék síðustu tíu mínútur leiksins í óvæntu tapi gegn Ajax.

Traore skoraði fyrsta mark sitt fyrir aðallið Barcelona í spænska bikarnum á síðasta tímabili en hann hefur aðallega leikið með varaliði Barcelona undanfarin ár.

Varalið Barcelona féll hinsvegar úr 2. deild á síðasta tímabili og vill Traore ekki leika í 3. deild spænsku deildarkeppninnar sem gerir það að verkum að hann óskaði þess að hann fengi að fara frá félaginu.

Traore gæti leikið fyrsta leik sinn fyrir Aston Villa annað kvöld er liðið tekur á móti Manchester United í fyrsta föstudagsleik tímabilsins. Flautað verður til leiks á Villa Park klukkan 18.45 en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Stöð 2 Sport 2 HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×