„Það sem ég hef að segja um Icesave málið er þetta. Ég held að báðar þjóðir líti svo á að það sé að baki í samskiptum okkar og við getum núna horft fram á við og talað um þá hluti sem við ætum að gera saman,“ sagði David Cameron á blaðamannafundi sem var haldin vegna Northern Future ráðstefnunnar.
Cameron var spurður að því hvort ríkisstjórn hans hafi velt fyrir sér að biðajst afsökunar á ákvörðun ríkisstjórnar Gordons Brown að nota hryðjuverkalöggjöfina til að frysta íslenskar eignir árið 2008.
„Við erum með mjög sterk viðskiptatengsl, sterk tengsl á sviði ferðamennsku með alla bresku ferðamennina sem eru að koma hingað í fegurðina og njóta landsins. Við erum með spennandi hugmyndir í samvinnu í orkumálum. Horfum til framtíðar frekar en til fortíðar,“ sagði Cameron.
Í frétt sem birtist á vef forsætisráðuneytisins í gær kemur fram að Cameron og Sigmundur Davíð ræddu á fundi sínum í gær um samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng.
Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir slíku í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér. Miðað er við að umræddur vinnuhópur skili niðurstöðu innan sex mánaða.
Cameron vill ekki velta sér upp úr Icesave-málinu
Jón Hákon Halldórsson skrifar
