Enski boltinn

Er þeirra tími kominn?

Arsenal varð bikarmeistari annað árið í röð í vor  en tekst þeim að landa þeim stóra í vor?
Arsenal varð bikarmeistari annað árið í röð í vor en tekst þeim að landa þeim stóra í vor? Vísir/Getty
Arsenal mætir til leiks með nánast sama lið og í fyrra. Það er þó ein stór breyting á liðinu: Petr Cech er kominn í markið og hann gæti verið síðasta púslið sem vantaði til að breyta Arsenal úr næstum því liði í meistaralið.

Cech býr yfir mikilli reynslu og er sigurvegari, auk þess að vera enn frábær markvörður. Hann sannaði mikilvægi sitt strax í leiknum um Samfélagsskjöldinn, þar sem Arsenal vann hans gömlu félaga í Chelsea með einu marki gegn engu. Arsenal hefur ekki verið jafn vel sett með markmann síðan Þjóðverjinn Jens Lehmann var upp á sitt besta.

Arsene Wenger er að hefja sitt nítjánda tímabil sem knattspyrnustjóri Arsenal. Frakkinn byrjaði frábærlega hjá Arsenal og vann þrjá Englandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla á fyrstu níu árum sínum hjá félaginu. En svo tók við níu ára löng bið eftir titli þar sem margir settu spurningarmerki við Wenger og hvort Frakkinn væri kominn á endastöð með liðið.

En eftir tvo bikartitla á síðustu tveimur árum og öflugan lokasprett á síðasta tímabili eru væntingarnar miklar fyrir tímabilið í ár. Og ekki að ástæðulausu. Arsenal var með besta liðið í seinni umferðinni í fyrra þar sem sterkur varnarleikur og beittur sóknarleikur fóru saman.

Ungu strákarnir Francis Coquelin og Héctor Bellerín komu nánast fullskapaðir inn í liðið, Santi Cazorla blómstraði eftir að hann var færður inn á miðjuna, Alexis Sánchez og Mesut Özil sýndu snilli sína og svo mætti lengi telja.

Arsenal-liðið hefur líka mannast að undanförnu, það spilar vel gegn hinum toppliðunum, er harðgerara og lætur ekki vaða yfir sig eins og það gerði áður. Og þá er liðið byrjað aftur að vinna svokallaða vinnusigra og þeim á örugglega eftir að fjölga með tilkomu Cech í markið.

Margt mælir með því að það verði Arsenal sem veiti ríkjandi meisturum Chelsea mesta keppni um Englandsmeistaratitilinn og svo gæti vel farið að Wenger myndi lyfta þeim stóra í byrjun maí eftir tólf ára langa bið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×