Enski boltinn

Verður Petr Cech munurinn á milli Arsenal og Chelsea í vor?

Cech er orðinn vanur því að lyfta þessum, tekst honum að endurtaka leikinn á Emirates?
Cech er orðinn vanur því að lyfta þessum, tekst honum að endurtaka leikinn á Emirates? Vísir/Getty
Arsenal hefur unnið titil tvö ár í röð og því yfir mörgu að gleðjast hjá stuðningsmönnum félagsins en sá stóri hefur ekki unnist eftir að félagið yfirgaf Highbury 2006.

Arsenal hefur verið í annaðhvort þriðja eða fjórða sæti undanfarin tíu tímabil en það hefur alltaf vantað aðeins upp á að liðið hefði burði í að keppa um enska titilinn.

Chelsea vann enska meistaratitilinn með sannfærandi hætti á síðustu leiktíð en Jose Mourinho hafði ekki pláss fyrir tékkneska landsliðsmarkvörðinn Petr Cech.

Petr Cech var búinn að vinna þrettán titla á ellefu árum með Chelsea og rússneski eigandinn Roman Abramovich var tilbúinn að leyfa honum að fara, meira að segja til erkifjendanna í Arsenal.

Cech þakkaði Roman Abramovich fyrir en um leið varð verkefni Jose Mourinho að verja titilinn enn erfiðara.

Sóknarleikur Arsenal hefur ávallt verið í hæsta gæðaflokki undanfarin ár en vandamálið hefur verið hinum megin á velli og ekki síst í markvarðarstöðunni.

Koma Petr Cech er í raun svar við öllum bænum stuðningsmanna Arsenal sem sáu liðið sýna styrk á lokasprettinum í fyrra þar sem það vann meðal annars átta leiki í röð og tapaði aðeins einum af 18 deildar- og bikarleikjum frá miðjum febrúar.

Fréttablaðið spáir Arsenal meistaratitlinum og að Petr Cech sé síðasta púslið í meistaraverk Arsene Wenger. Það hefur tekið hann sinn tíma að byggja upp nýtt lið á Emirates og í vetur er hann með efni í fyrstu Englandsmeistara Arsenal í tólf ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×