Enski boltinn

Virkar sama formúlan tvö ár í röð?

Mourinho er í guðatölu á Brúnni.
Mourinho er í guðatölu á Brúnni. Vísir/Getty
Chelsea varð enskur meistari með miklum yfirburðum á síðasta tímabili en verkefni tímabilsins í ár er eitthvað sem aðeins tveimur liðum hefur tekist á þessari öld, að verja enska meistaratitilinn. Sex ár eru síðan einhverju liði tókst að verja titil sinn þegar Manchester United stóð uppi sem sigurvegari vorið 2009 eftir spennandi baráttu við erkifjendurna í Liverpool.

Chelsea er annað þessara liða en undir stjórn Mourinhos varð Chelsea enskur meistari tvö ár í röð fyrstu tvö ár hans hjá félaginu og var það líkt og á síðasta tímabili með miklum yfirburðum.

Eftir að hafa misst titilinn yfir til Manchester United vorið 2007 greiddi skyndileg uppsögn portúgalska stjórans götuna fyrir Manchester United sem varð enskur meistari þrjú ár í röð.

Því miður fyrir önnur lið bendir hins vegar ekkert til þess að Mourinho sé á förum frá félaginu.

Keyrt á sömu leikmönnum



Gera má ráð fyrir að hryggsúla liðsins verði sú sama og á síðasta tímabili.

Fyrirliði liðsins, John Terry, verður eins og klettur og fyrir framan Terry verða þeir Matic og Fabregas að stýra spili liðsins.

Þrátt fyrir að hafa fengið til liðs við sig kólumbíska framherjann Falcao mun Diego Costa sem sló í gegn á sínu fyrsta tímabili verða fyrsti kostur áfram.

Líkt og síðast þegar Chelsea varði enska meistaratitilinn hafa litlar breytingar verið gerðar á leikmannahóp Chelsea í sumar. Stóra spurningin er hvort þreytumerki verði á liðinu?

Leikmennirnir sem farnir eru léku lítið á síðasta tímabili en búið er að finna staðgengla fyrir þá til þess að styrkja leikmannahópinn.

Engin sumarsæla hjá Chelsea



Chelsea hefur leik gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea í lokaleik dagsins en árangur liðsins á undirbúningstímabilinu hefur verið slakur. Tókst liðinu ekki að vinna einn leik á undirbúningstímabilinu og töpuðust leikir gegn NY Red Bulls og Fiorentina.

Þá tókst leikmönnum Chelsea ekki að ógna marki Arsenal af neinni alvöru fyrir utan aukaspyrnu Oscars í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

Chelsea lék án Costa í framlínunni gegn Arsenal og virkuðu Falcao og Remy hálf áttavilltir. Var sóknarleikurinn fyrir vikið afar bitlaus í leiknum.

Chelsea treystir á að þeir tveir geti leyst Costa af í upphafi móts en óvíst er hvenær hann verður leikfær. Mun því eflaust mikið mæða á Eden Hazard, besta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili, í fjarveru Costa.

Hversu lengi endist Mourinho?

Þrátt fyrir allan árangurinn hefur Mourinho aldrei enst fjögur tímabil með neitt lið.

Lengst stýrði hann Chelsea í fyrra skiptið í rúm þrjú tímabil en hann sagði upp eftir sex umferðir.

Entist hann aðeins eitt ár með Uniao de Leiria, tvö tímabil með Porto, tvö með Inter og þrjú með Real Madrid.

Mourinho skrifaði í gær undir nýjan fjögurra ára samning hjá Chelsea en eftir að hafa stýrt liði í þremur af stærstu fimm deildum Evrópu og verða meistari í þeim öllum hefur hann hvergi fundið fyrir jafn mikilli ást og á Brúnni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×