Lífið

Hanna drusluvarninginn í ár

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Nóg að gera hjá Grétu og Helgu að hanna allan varning Druslugöngunnar í ár.
Nóg að gera hjá Grétu og Helgu að hanna allan varning Druslugöngunnar í ár. Mynd/aðsend
Druslugangan verður gengin á laugardaginn næsta í fimmta sinn. Í seinustu viku var plakötum, sem kynna ýmsa stuðningsmenn göngunnar, komið fyrir í strætóskýlum um allan bæ. Plakötin voru hönnuð af Grétu Þorkelsdóttur og Helgu Dögg Ólafsdóttur.

Þær hanna einnig allan varning og kynningarefni fyrir gönguna, eins og í fyrra þegar Steinar Ingólfsson var með þeim. Búist er við talsvert fleiri þátttakendum í ár enda hefur umræðan um kynferðisafbrot og kvenréttindi á þessu ári aldrei verið háværari.

„Við vildum auðvitað taka þetta að okkur aftur. Þetta er allt töluvert meira um sig heldur en í fyrra. Í fyrra vorum við með mun færri strætóskýli og þau voru algjört aukaatriði, en núna vildum við vekja mikla athygli á þessu og gera þetta eins stórt og hægt er. Við erum líka með derhúfur, boli og tyggjótattú sem verður til sölu í göngunni og í pepp-partíinu sem verður haldið á Húrra núna á miðvikudagskvöldið. Húfurnar verða einnig til sölu í Jör frá og með deginum í dag,“ segir Gréta.

Gréta og Helga kynntust þegar þær voru saman í bekk í grafískri hönnun í listaháskólanum. „Við vinnum ótrúlega vel saman. Við erum núna búnar með tvö ár og erum með miklu betri tilfinningu fyrir þessu í ár heldur en í fyrra. Markmiðið í ár var líka að ná til breiðari hóps og mér sýnist það vera að takast. Í fyrra mættu í kringum 12.000 manns í gönguna en í ár eigum við von á 20.000 manns,“ segir Helga Dögg.

Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað á þessu ári hvað varðar réttindi kvenna og kynferðisafbrot. Á Beauty tips-síðunni þar sem stelpur á öllu aldri sögðu frá sinni upplifun af kynferðisafbrotum var áberandi hve þöggunin hefur verið mikil. Flest afbrotanna höfðu ekki farið í gegnum réttarkerfið, enda gífurlega mörgu ábótavant í þeim efnum hér á landi. Mikil umræða hefur átt sér stað á Twitter meðal annars með kassamerkjunum „free the nipple“ og „6dagsleikinn“ en þetta hefur vakið athygli erlendis.

Druslugangan hefst klukkan 14 á laugardaginn og verður gengið frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll. Allir eru hvattir til þess að mæta á upphitunarkvöld Druslugöngunnar á miðvikudaginn á skemmtistaðnum Húrra, en þar munu landsþekktar hljómsveitir og tónlistarmenn stíga á svið.

Eins og áður hefur komið fram mun varningurinn sem er hannaður af Grétu og Helgu Dögg verða seldur þar og einnig í göngunni sjálfri.


Tengdar fréttir

Ellefu þúsund í Druslugöngu

Rúmlega ellefu þúsund manns gengu hina svonefndu Druslugöngu, sem farin var í fjórða sinn í Reykjavík í glampandi sólskini í dag.

Unga fólkið fullt af réttlætiskennd

Ungliðahreyfing Amnesty International stendur fyrir undirbúningsfundi í kvöld og eru Drusluganga og Pyntingardagur í brennidepli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×