Gróðurhúsið er eitt af þeim tólf hljóðverum sem hljómsveitum er boðið að taka upp í í nýju verkefni á vegum bandaríska skóframleiðandans Converse. Önnur stúdíó sem taka þátt eru meðal annars Abbey Road í London sem Bítlarnir unnu mikið í, Tuff Gong á Jamaica, og Sunset Sound í Los Angeles.
Verkefnið heitir Converse Rubber Tracks þar sem fyrirtækið veitir ókeypis tíma í stúdíói til handa hljómsveitum sem ekki eru með útgáfusamning og halda tónlistarmenn öllu eignarhaldi á tónlist sinni.
Converse ætlar að gefa 84 hljómsveitum tækifæri til þess að taka upp á stöðum þar sem sumir frægustu tónlistarmenn heims hafa einnig tekið upp ókeypis.
Greenhouse Studios er í Breiðholti og hefur verið til síðan árið 1997. „Öll þau stúdíó sem eru á þessum lista eru frábær og hafa sína sérstöðu. Það er mikil viðurkenning á okkar sérstöðu að vera á þessum lista,“ segir Valgeir. Hann hefur verið að byggja upp hljóðverið í rólegheitum frá árinu 1997.
Þekkt nöfn sem unnið hafa í Gróðurhúsinu undanfarin ár eru Damon Albarn, Feist, Coco Rosie, Björk og Sigur Rós.