Tónlist

Tók kvíðann í störukeppni og sigraði hann

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Saga Matthildur stóð sig frábærlega á laugardaginn og hún var efst í símakosningu.
Saga Matthildur stóð sig frábærlega á laugardaginn og hún var efst í símakosningu. Vísir/Pjetur
Það var ekki leiðinlegt fyrir Sögu Matthildi Árnadóttur að mæta í skólann á mánudagsmorguninn eftir frábæran árangur í söngkeppni framhaldsskólanna á laugardaginn.

Hún sigraði í símakosningunni en dómararnir skipuðu hana í þriðja sæti .

„Ég fékk mjög mörg faðmlög og forseti nemendafélagsins bað mig um að syngja lagið í hádeginu sem ég gerði auðvitað,“ segir Saga. Hún segir að það hafi komið sér á óvart hversu langt hún komst og hún hafi verið mjög ánægð með sigurlagið hjá Karólínu í MR. „Hún er svo ótrúlega flott, valdi lagið vel og fílaði sig greinilega mjög vel á sviðinu,“ segir Saga.

Fyrir atriðið á laugardaginn greindi Saga frá því að hún hafi lengi glímt við félagskvíða og þetta hafi verið eitthvað sem hún hafi þurft að gera fyrir sjálfa sig til þess að líða betur. „Ég ákvað að horfast í augu við kvíðann og þetta hefur hjálpað mér mjög mikið. Ég er mjög glöð að hafa gert þetta,“ segir hún. „Ég sagði engum að ég hefði skráð mig í keppnina nema mömmu minni og vinkonu minni sem er í öðrum skóla. Hinar vinkonur mínar komust ekki að þessu fyrr en bara sama dag og forkeppnin í FG fór fram.“

Saga Matthildur spilaði á gítar á meðan hún söng lagið Lay Me Down með Sam Smith á laugardaginn. Hún hefur æft á gítar í þrjú ár og er dugleg að æfa sig heima og prófa sig áfram. Undirbúningurinn fyrir keppnina var strangur en um tveimur vikum fyrir keppnina var vinnuhelgi þar sem allir þátttakendur hittust og voru þjálfaðir í framkomu og fleira. „Það kom mér á óvart hvað það voru ótrúlega margir hæfileikaríkir og skemmtilegir krakkar þarna. Við fórum í viðtöl og myndatökur sem var mjög gaman,“ segir Saga.


Tengdar fréttir

„Hélt að Saga myndi hafa þetta"

Menntaskólamærin Karólína Jóhannsdóttir kom, sá og sigraði Söngkeppni framhaldskólanna á laugardag, hún var þó ekki allveg viss um að þetta myndi takast á lokasprettinum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.