Menning

Talandi ljóðskáld í vetrarmyrkrinu

Magnús Guðmundsson skrifar
"Að mæla ljóðin af munni fram er mitt form og hefur í raun alltaf verið,“ segir kanadíska ljóðskáldið Mary Pinkoski.
"Að mæla ljóðin af munni fram er mitt form og hefur í raun alltaf verið,“ segir kanadíska ljóðskáldið Mary Pinkoski. Vísir/GVA

Reykjavík er ein af bókmenntaborgum UNESCO og fagnar Vetrarhátíð með einstöku ljóðakvöldi í Tjarnarsal Ráðhússins. Þar eiga skáldlegt stefnumót kanadíska ljóðskáldið Mary Pinkoski, reykvísku skáldin Anton Helgi Jónsson og Elías Knörr ásamt tónlistarkonunni dj flugvél og geimskip.

Skáldin flétta saman skáldskap hvert annars ásamt því að flytja eigið efni á sinn einstaka hátt. Öll leggja skáldin áherslu á munnlegan flutning ljóðlistar en með ólíkum áherslum. Mary Pinkoski skilgreinir sig sem „spoken word poet“ eins og hún segir sjálf.

„Ég hef alltaf verið svona skáld. Ég nýt þess að koma fram og flytja mitt efni og hef alltaf verið talandi ljóðskáld.

Hef í raun alltaf verið mjög upptekin og hrifin af þessu formi að segja sögur og finnst það vera ákaflega mikilvægt. Þetta er færni og arfleifð sem er mikilvægt að viðhalda og endurnýja. Ég hef verið að fást við þetta í ellefu ár og það sem ég nýt hvað best er hvernig verkin koma aftur til mín frá fólkinu og umhverfinu sem ég er að flytja þetta inn í. Hið talaða ljóð er þannig ákaflega lifandi fyrirbæri.“

Mary Pinkoski er borgarskáld Edmonton og sem borgarskáld þá skrifar hún fyrir borgina og fjallar um ýmislegt sem henni tengist. En þvert á að finnast það vera hamlandi og takmarkandi þá er hún á því að það hafi frekar orðið til þess að opna fyrir ýmsa möguleika.

„Ég óttaðist kannski aðeins að ég þyrfti að fara inn í einhvern ákveðinn kassa við þetta en þvert á móti þá hefur þetta ýtt mér út ef svo má segja. Rekið mig til þess að takast á við viðfangsefni sem ég hefði kannski ekki verið að horfa til annars og leita nýrra leiða til þess að forma mín verk.“

Dagskráin á fimmtudagskvöldið er innblásin af ljósinu í vetrarmyrkrinu og hefst kl. 20.30 í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Mary hefur ekki miklar áhyggjur af íslenska skammdeginu og kuldanum enda ýmsu vön frá heimalandinu. Hún tekur þó fram að hún hafi áður haft smávægileg en ánægjuleg kynni af íslenskri ljóðlist.

„Ég kynntist verkum Stephans G. þegar ég kom fram í Alberta á sínum tíma og mér finnst skemmtilegt að finna þessi tengsl. Annars er nú efst í huga mér sem stendur að ég ætla að njóta dvalarinnar á Íslandi fyrir tilstilli ljóða og listar og vonast auðvitað eftir því að sjá sem flesta mæta á fimmtudagskvöldið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×