Innlent

Nýrnasýki afgerandi þáttur í hnignun bleikju á Íslandi

Svavar Hávarðsson skrifar
Við Elliðavatn. Nýrnasýki greindist fyrst árið 2008 í bleikju í Elliðavatni, en var þangað til óþekkt hérlendis.
Við Elliðavatn. Nýrnasýki greindist fyrst árið 2008 í bleikju í Elliðavatni, en var þangað til óþekkt hérlendis. Fréttablaðið/Heiða
Allt bendir til þess að PKD-nýrnasýki sé afgerandi þáttur í hnignun villtra bleikjustofna í stöðuvötnum á Íslandi – þar á meðal Elliðavatni. Sýkillinn greinist í nær öllum stöðuvötnum og ám sem rannsökuð hafa verið hérlendis, og hátt hlutfall sjúkra fiska finnst í þeim vatnakerfum þar sem vatnshiti nær kjörhitastigi sýkilsins.

Þetta er meðal niðurstaðna nýjustu rannsókna á nýrnasýki í laxfiskum á Íslandi en Árni Kristmundsson, fisksjúkdómafræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, hélt erindi á málstofu Hafrannsóknastofnunar í gær. Umfangsmiklar rannsóknir á nýrnasýki hafa staðið yfir undanfarin sex ár, í samstarfi Tilraunastöðvar HÍ, Veiðimálastofnunar og University of Malaya í Malasíu.

Árni gerði grein fyrir því að rannsóknir þau sex ár sem þær hafa staðið yfir hafa náð til 19 stöðuvatna víða um land, og fimm áa. Smit hefur fundist í 23 af þessum 24, en undantekningin er stöðuvatn sem tekur vatn beint undan jökli. „Það var hátt hlutfall sjúkra fiska í mörgum hlýrri vötnum og ám, og einkum í yngsta fiskinum. Engir sjúkir fiskar í þeim kaldari hins vegar,“ sagði Árni og bætti við að ekkert benti til að sýkillinn væri nýr í íslenskum vatnakerfum, heldur hefði hitastig þeirra vakið upp vandamálið. 

Hafi fundarmenn efast um samhengi nýrnasýki og hnignunar bleikjustofna á síðustu árum, sýndi Árni gögn sem sýna að eftir árið 1991 er óvefengjanlegt samhengi á milli snarhækkandi hitastigs stöðuvatna og hruns í bleikjustofnum og veiði úr þeim. Hlutfall bleikju í Elliðavatni á móti urriða í rannsóknaveiðum var t.d. 55 til 85% á árabilinu 1974 til 1984, en er síðustu árin þrjú til 14%.

Árni tók mörg dæmi í fyrirlestri sínum. „Það er mjög há tíðni sjúkra urriðaseiða í Elliðaám, og mér finnst það vera áhyggjuefni. […] Laxinn í Elliðaánum virðist þolinn gegn sýkingunni, enda er ekkert sem bendir til þess að laxastofninn í ánum sé í vandræðum. Hins vegar er há smittíðni í laxinum og hann er án efa mjög virk uppspretta smits í vistkerfinu,“ sagði Árni.

Spurður hversu hátt hlutfall laxfiska lifi sýkinguna af, sagði Árni það ekki vitað með vissu. „Það eru hins vegar miklar grunsemdir um verulegan skaða af þessari sýki í ákveðnum vatnakerfum,“ segir Árni.

Nýrnasýki alvarlegt vandamál erlendis

PKD-nýrnasýki, eða Proliferative Kidney Disease, er alvarlegur sjúkdómur sem herjar á laxfiska í ferskvatni.

Sjúkdómurinn orsakast af smásæju sníkjudýri, Tetracapsuloides bryosalmonae, sem þarfnast tveggja hýsla til að ljúka lífsferli sínum; laxfiska og mosadýra.

PKD-nýrnasýki er beintengd vatnshita, sem þarf að ná 12 gráðum í nokkurn tíma svo fiskar sýni sjúkdómseinkenni. Nýrnasýki greindist fyrst í Elliðavatni árið 2008, en fiskur hefur borið sníkjudýrið fyrir þann tíma. Smitaður fiskur og sjúkur er þó tvennt ólíkt.

Samfara hlýnandi veðurfari hefur sýkin verið vaxandi vandamál í villtum laxfiskastofnum í Evrópu og greinist nú á norðlægari slóðum en áður, nú síðast á Íslandi haustið 2008. Á sama tíma hefur bleikjustofnum hnignað víða á Íslandi, einkum í grunnum láglendisvötnum þar sem vatnshiti yfir sumarið getur orðið umtalsverður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×