Innlent

Vill að dregið verði úr lokunum í sumar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Framkvæmdastjóri skurðlækninga á Landspítalanum segir að skurðstofur spítalans og legudeildir séu fullnýttar.
Framkvæmdastjóri skurðlækninga á Landspítalanum segir að skurðstofur spítalans og legudeildir séu fullnýttar. Fréttablaðið/Vilhelm
Raunhæfasta leiðin til að vinna á þeim biðlista sem myndaðist á Landspítala vegna læknaverkfallsins er að draga úr sumarlokunum spítalans í sumar.

Einnig þurfa sjúklingar sem lokið hafa meðferð að komast fyrr í framhaldsúrræði, á hjúkrunarheimili eða í sérhæfða eftirmeðferð. Þetta segir Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækninga á spítalanum.

Um 700 aðgerðir féllu niður þann tíma sem verkfallið stóð yfir. Lilja segir að þessar aðgerðir dreifist á allar sérgreinar.

„Það er bagalegt að verkfallið skuli hafa verið á þessum tíma í nóvember og desember,“ segir Lilja. Aðalstarfsemi spítalans sé á þessum mánuðum því það dragi úr henni um jól og páska. Eins dragi heilmikið úr starfseminni á sumrin.

„Við höfum sagt að það muni taka lungann úr þessu ári að vinna hann niður,“ segir Lilja um biðlistann. Þá meti starfsmenn spítalans stöðuna þannig að það muni taka viku til viðbótar að sjá endanleg áhrif verkfallsins. Til dæmis hafi fjöldi hjartaþræðinga frestast. „Við vitum að þegar fólk er búið að fara í þræðingu þá mun það skila sér að einhverju leyti inn á biðlista hjá okkur,“ segir Lilja.

Varðandi hvort hægt sé að vinna á biðlistanum með því að starfsfólk spítalans vinni lengri vinnudag segir Lilja skurðstofur Landspítalans og legudeildir sem sjúklingar fara á eftir aðgerðir séu fullnýttar.

„Eins og staðan er núna og áður en verkfallið kom þá er allt keyrt í botn. Við erum að skoða hvort hægt sé að gera eitthvað eins og að stytta samdrátt á sumri. Þetta er það sem við erum að lúra yfir núna og reikna út hvað það kostar,“ segir hún.

Lilja bætir við að þegar aðalmarkmið starfseminnar sé að tryggja öryggi sjúklinga sé ekki raunhæft að vinna í akkorði. „Það sem skiptir mestu máli er að halda alltaf áfram jafnt og þétt og gera þetta á eins öruggan hátt og yfirvegaðan og hægt er,“ segir hún og bætir við að spítalinn megi ekki við frekari röskunum vegna vinnudeilna á þessu ári. 

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Fréttablaðið/Pjetur
Greining liggur ekki fyrir

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra getur ekki sagt til um hvaða leiðir verði farnar til að vinna á biðlistum Landspítalans né heldur hvernig þær verði fjármagnaðar.

„Ég hef óskað eftir við landlækni að greina áhrifin af verkfallsaðgerðum lækna á biðlista og þjónustu við sjúklinga. Sú greining mun taka til alls landsins því að verkfallið hafði áhrif víðar og tók til fleiri heilbrigðisstofnana en Landspítalans. Á meðan þessi greining liggur ekki fyrir og ég veit að LSH er ekki búinn að vinna sína vinnu og gera landlækni skil á henni þá er hreinlega ótímabært að tjá sig um það með hvaða hætti best verður tekið á þessu,“ segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×