Innlent

Greiðslurnar verði í takti við tekjur fólks

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Foreldrar taka ekki fæðingarorlof í sama mæli og áður.
Foreldrar taka ekki fæðingarorlof í sama mæli og áður. NordicPhotos/afp
„Eitt meginmarkmið laganna var náttúrlega að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði,“ segir Leó Þorleifsson, forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs. Hann segist geta tekið undir orð Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Þorsteinn telur að greiðslur í fæðingarorlofi hafi skerst svo mikið að búið sé að eyðileggja kerfið, eins og fram kom í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Leó segir að þegar greiðslurnar voru skertar hafi stjórnvöld tekið skýrt fram, að um tímabundna aðgerð væri að ræða.

„Til að fæðingarorlofið verði til þess fallið að jafna stöðu kynjanna verða greiðslurnar að vera í takti við tekjur fólks. Ef þær eru of lágar þá eru einhverjar líkur á því að það muni halla á fæðingarorlofstöku, sérstaklega feðra,“ segir Leó.

Fæðingarorlofssjóður fær hlutfall af almennu tryggingagjaldi en það hlutfall hefur verið lækkað. Leó bendir á að Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hafi haft hugmyndir um, og skipað starfshóp, til þess hækka hámarksgreiðslur úr sjóðnum. „Það verður erfitt að ráðast í þær nema tekjustofninn verði tryggður,“ segir Leó. „Það verður þá að hækka hlutdeild okkar í tryggingagjaldinu,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×