Innlent

Sjö bílstjórar hafa látið af störfum vegna ástandsins

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Sjö bílstjórar hjá Hópbílum, sem annast akstur fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra, hafa sagt upp störfum frá áramótum.
Sjö bílstjórar hjá Hópbílum, sem annast akstur fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra, hafa sagt upp störfum frá áramótum. Fréttablaðið/Pjetur
Bílstjórar sem aka fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra hafa sagt upp störfum vegna álags eftir að breytt akstursfyrirkomulag var tekið í notkun. Mikið hefur verið fjallað um óánægju með nýtt akstursfyrirkomulag hjá Ferðaþjónustu fatlaðra eftir að Strætó tók við rekstrinum um áramótin. Bæði fatlaðir og eldri borgarar sem nýta sér þjónustuna hafa lent í vandræðum með að ná sambandi til þess að panta bíl, bílar hafa verið seinir auk þess sem óhöpp hafa orðið við aksturinn.

Sjö bílstjórar hafa sagt upp störfum hjá Hópbílum sem sjá um þriðjung akstursins fyrir Strætó. Pálmar Sigurðsson, starfsmannastjóri Hópbíla, staðfestir þetta og segir umræðuna hafa tekið mjög á bílstjórana. Alls sjá 27 bílstjórar hjá fyrirtækinu um þennan tiltekna akstur. Hann segir að af þeim hópi hafi 22 mikla reynslu, meðal annars af akstri fatlaðra, en Hópbílar sinntu Ferðaþjónustu fatlaðra í Hafnarfirði.

@kvót fréttasíður nafnogtitill:Bryndís Haraldsdóttir
„Þessi umræða sem hefur verið í gangi hefur ekki verið mikil hvatning fyrir bílstjóra til þess að vera að sinna þessari þjónustu. Umræðan er þess eðlis að mönnum hefur bara ekkert liðið vel. Menn eru að sinna starfi sínu af heilum hug. Það eru yfir 2.000 skjólstæðingar á ferðinni og stór hluti af þeim er að fara örugglega sínar ferðir á réttum tímum. Svo gleymist það að færðin hefur heldur ekki hjálpað til í þessum akstri. Það eru margir þættir sem hafa gert það að verkum að þetta hefur verið svolítið strembið.“

Pálmar segir að verið sé að ráða nýja bílstjóra inn í stað þeirra sem sögðu upp og verið sé að þjálfa þá. Það bitni þó ekki á akstrinum þar sem það séu um 200 starfsmenn hjá fyrirtækinu og aðrir sem fari inn í þetta á meðan. Hann segir ástandið vera að lagast. „Strætó er á fullu að stilla strengina í þessu, það er stór hópur af fólki að vinna baki brotnu við að setja þetta í það horf sem menn horfa til. Þetta er allt saman að skána og lagast. Þetta á til lengri tíma litið að vera í alla staði mun betra. Ég er bjartsýnn á að það gangi. Við erum að sjá batamerki á þessu dag frá degi.“

Formaður stjórnar Strætó, Bryndís Haraldsdóttir, segir verið að vinna í þeim vandræðum sem hafi komið upp. „Þjónustan er að batna, við erum að ná meiri árangri, það er minni biðtími og sjaldnar sem kemur fyrir að fólk er seint, það eru jákvæðu fréttirnar. En augljóslega hafa orðið mikil frávik og við hörmum það mjög,“ segir Bryndís. „Við höfum öll fulla trú á því að við náum vel utan um þetta verkefni og getum veitt góða þjónustu,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×