Innlent

Unnu 2.773 tíma í yfirvinnu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Aðgengið að yfirfullum tunnum var stundum ekki upp á marga fiska.
Aðgengið að yfirfullum tunnum var stundum ekki upp á marga fiska. Mynd/Reykjavíkurborg
Sorphirða í Reykjavík er að færast í eðlilegt horf eftir að hafa gengið úr skorðum í desember. „Veður og færð munu skera úr um hvenær verður búið að ná upp seinkuninni,“ segir í svari Eygerðar Margrétardóttur, deildarstjóra umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá borginni, við fyrirspurn í umhverfis- og skipulagsráði.

Eygerður segir sorphirðufólk hafa unnið aukalega á aðfangadag, sunnudaginn 28. desember, gamlársdag, laugardaginn 3. janúar og laugardaginn 10. janúar auk þess sem unnið hafi verið fram eftir alla virka daga frá 5. desember til 3. janúar. Yfirvinna síðustu tuttugu dagana í desember hafi af þessum sökum orðið 2.773 klukkustundir.

„Þrátt fyrir þetta dróst sorphirða í Reykjavík eins og hjá fleiri nágrannasveitarfélögum í desembermánuði,“ segir Eygerður. Þá kemur fram að fyrst hafi farið að síga á ógæfuhliðina 8. desember vegna veðurs og bilana í bílum. „Komið hefur verið til móts við íbúa með því að hirða umframúrgang við tunnur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×