Innlent

Indverjar vilja fjögur stæði á Túngötu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Átta starfsmenn sendiráðs Indlands segja sér ekki duga eitt sérmerkt bílastæði við Túngötu 7.
Átta starfsmenn sendiráðs Indlands segja sér ekki duga eitt sérmerkt bílastæði við Túngötu 7. Fréttablaðið/Ernir
Indverjar, sem nú eru með sendiráð sitt á Túngötu 7, segja sér ekki duga að hafa aðeins eitt sérmerkt bílastæði við húsið. Þeir þurfi minnst fjögur stæði.

Við sendiráð Rússlands ofan við sendiráð Indlands eru mörg bílastæði eingöngu ætluð sendiráðsmönnum.Fréttablaðið/Ernir
„Eins og þú veist kannski eru tvíhliða samskipti Indlands og Íslands náin og þau verða styrkt á komandi árum,“ er minnt á í bréfi Suresh Kumar, sendifulltrúa Indverja, til Ólafs Bjarnasonar, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar.

Kumar segir átta fulltrúa Indverja starfa í sendiráðinu. Þeir ráði flestir yfir eigin farartæki.

„Til þess að starfsemi sendiráðsins gangi greitt fyrir sig óskum við eftir fjórum bílastæðum hið minnsta sem allra fyrst,“ segir sendifulltrúinn. „Það er óþarft að taka fram hér að önnur sendiráð á svæðinu hafa fengið góðan fjölda stæða fyrir sín farartæki,“ bætir Kumar við og lýkur þar með bréfi sínu sem mun vera það þriðja í röðinni um þetta efni frá því í maí í fyrra.

Aðeins eitt stæði er sérmekt indverska sendiráðinu.Fréttablaðið/Ernir
Ólafur Bjarnason samgöngustjóri lagði til við skipulagsráð að Indverjar fengju tvö bílastæði en ekki fjögur.

„Samkvæmt viðmiðunarreglum frá árinu 2011 mun Reykjavíkurborg úthluta hverju sendiráði tveimur sérmerktum bílastæðum þar sem því verður við komið vegna aðstæðna á hverjum stað. Þeim reglum hefur verið beitt síðan,“ segir í umsögn Ólafs sem skipulagsráð samþykkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×