Innlent

Veiðiréttarhafar stefna ríkinu vegna dvínandi vatns í Grenlæk

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Veiðimenn hafa átt góðar stundir á vatnasvæði Grenlækjar en telja að nú hafi syrt í álinn.
Veiðimenn hafa átt góðar stundir á vatnasvæði Grenlækjar en telja að nú hafi syrt í álinn. Mynd/Gunnar J. Óskarsson.
„Menn eru að segja upp veiðisvæðum og endurnýja ekki leiguna af því að það er svo miklu minni afli,“ segir Erlendur Björnsson, formaður Veiðifélags Grenlækjar. Veiðiréttarhafar við Grenlæk stefna ríkinu og Skaftárhreppi og vilja að dómstólar staðfesti skaðabótaskyldu þessara aðila vegna minnkandi veiði í ánni.

Í stefnunni eru raktar ýmsar framkvæmdir allt frá því á sjötta áratug síðustu aldar sem breytt hafi vatnsrennsli. Meðal annars hafi stíflugarður verið lengdur um 110 metra á árunum 1992 til 1998. Vitnað er til skýrslu Veiðimálastofnunar frá árinu 1998:

„Þær hamfarir, sem þurrkun Grenlækjar og Tungulækjar eru, hafa valdið stórkostlegri röskun á lífríkinu,“ sagði Veiðimálastofnun og benti á mikilvægi þess að vatni yrði aftur komið inn í lífríkið. „Það er forsenda þess að þeir árgangar sjóbirtings sem enn eru til nái að halda velli, að öðrum kosti er hætt við að þessi stofn verði fyrir varanlegum skaða eða líði undir lok.“

Fram kemur að árlegar leigutekjur af veiðiréttinum hafi verið 20 til 23 milljónir króna upp úr aldamótum en að miðað við ástandið telji matsmennirnir að leigutekjurnar verði sex til átta milljónir á næstu árum.

Eftir að matsgerðin lá fyrir segir í stefnunni að Vegagerðin hafi neitað bótaskyldu eins og umhverfisráðuneytið, sem hafi hins vegar ítrekað boðað að jákvæðra tíðinda væri að vænta frá vinnuhópnum Skaftárnefnd. „Ekkert bólar hins vegar á slíkum tíðindum,“ segir í stefnunni sem veiðiréttarhafar segja sig nú nauðbeygða til að leggja fram.

Matsmenn segja að árlegar tekjur af leigu veiðiréttinda í Grenlæk stefni í að verða sex til átta milljónir miðað við 20 til 23 milljónir upp úr síðustu aldamótum.Fréttablaðið/Garðar Örn Úlfarsson
Garðurinn frá 1992 og rör sem takmörkuðu vatnsflæði voru fjarlægð sumarið 1998. Ríkisstjórnin samþykkti hins vegar vorið 1999 að setja fjármagn til framkvæmda við útfall Árkvísla. Skipulagsstofnun hafnaði kröfu veiðiréttarhafa um umhverfismat því að um væri að ræða fjögurra ára tilraunaverkefni til að meta hvort stýra ætti rennsli á vatni úr Skaftá út á Eldhraun til frambúðar.

Skaftárhreppur tók framkvæmdina að sér. Veiðiréttareigendurnir segja að á þessu fjögurra ára tilraunatímabili virðist sem engin vöktun hafi verið á svæðinu sem þó hafi verið skilyrði sveitarfélagsins sjálfs fyrir framkvæmdaleyfi. „Þá virðast engar rannsóknir hafa verið framkvæmdar um áhrif þess að vatni væri stýrt á þennan hátt,“ segir í stefnunni.

Að því er segir í stefnunni hafa landeigendur og veiðiréttarhafar frá árinu 2005 ítrekað en árangurslaust beðið um aðgerðir til að bæta vatnsbúskapinn í Grenlæk. Þáverandi eigandi jarðarinnar Skálar hafi í nokkur ár fram til ársins 2012 veitt vatni á hraunið en nýr eigandi Skálar hafi ekki haldið því áfram.

Haustið 2012 óskaði Veiðifélag Grenlækjar eftir því að matsmenn yrðu fengnir til að staðreyna hvort framkvæmdir á vegum opinberra aðila hefðu valdið tjóni á lífríki Grenlækjar og meta umfang tjónsins fyrir veiðiréttarhafa.

Sumarið 2013 lengdi Vegagerðin varnargarð ofan þjóðvegar frá Bresti að afleggjaranum að Skál. Erlendur Björnsson skrifaði þá bréf fyrir hönd veiðifélagsins til Vegagerðarinnar og gerði athugasemdir og lýsti ábyrgð á hendur Vegagerðinni. „Engin viðbrögð bárust við bréfinu,“ segir í stefnunni.

Niðurstaða matsmannanna tveggja lá fyrir í september 2013. „Niðurstaða matsgerðarinnar er í meginatriðum sú að mannlegar athafnir, sérstaklega bygging varnargarða á vegum opinberra aðila, hafi dregið úr náttúrulegu áflæði Skaftár á Eldhraunið og þar af leiðandi á rennsli í Grenlæk. Bleikju- og urriðaveiði hafi dregist saman á síðustu árum, líklega vegna staðbundinna orsakavalda, til dæmis vatnsrennslis og að veiðiréttarhafar hafi vegna þessa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna tapaðra leigutekna,“ segir í stefnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×