Innlent

Fagnar því ef vinnsla hefst á Vopnafirði

Sveinn Arnarsson skrifar
Ólafur Áki Ragnarsson segist hafa margoft boðið forsvarsmönnum Vopnfisks til viðtals.
Ólafur Áki Ragnarsson segist hafa margoft boðið forsvarsmönnum Vopnfisks til viðtals.
Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, fagnar því ef forsvarsmenn Vopnfisks ehf. telja sig geta unnið úthlutaðan byggðakvóta sveitarfélagsins í heimabyggð á yfirstandandi fiskveiðiári. Vonar hann að útgerðaraðilar og Vopnfiskur nái saman svo vinnsla geti hafist sem fyrst.

„Við höfum margoft í haust boðið forsvarsmönnum Vopnfisks austur til viðtals við okkur en það ekki gengið. Við gátum því ekki beðið lengur og óskuðum eftir undanþágu frá vinnsluskyldu byggðakvóta. Það er hins vegar keppikefli okkar að vinnsla hefjist í heimabyggð því það eykur bæði fjölbreytni starfa í byggðarlaginu og einnig auðveldar það útgerðaraðilum að sækja fiskinn. Nú er bara vonandi að menn komi sér saman,“ segir Ólafur Áki.

Forsvarsmenn Vopnfisks hafa lagt inn til atvinnuvegaráðuneytisins greinargerð þar sem þeir gagnrýna ósk Vopnafjarðarhrepps um undanþágu á vinnsluskyldu byggðakvóta.

„Það er ekki við okkur að sakast í sveitarstjórninni. Við höfum óskað eftir samræðum við fyrirtækið og ekki fengið í haust. Nú vonum við bara að útgerðaraðilar og vinnslan semji um verð. Það þarf að veiða þennan byggðakvóta sem okkur hefur verið úthlutað og því mikilvægt að vinnsla geti þá hafist sem allra fyrst í byggðarlaginu,“ segir Ólafur Áki, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×