Innlent

Líklegt að passinn breytist hjá þinginu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ólga er innan þingflokks sjálfstæðismanna vegna náttúrupassans. Ólíklegt þykir að frumvarpið verði afgreitt í óbreyttri mynd og eru aðrar hugmyndir ræddar.
Ólga er innan þingflokks sjálfstæðismanna vegna náttúrupassans. Ólíklegt þykir að frumvarpið verði afgreitt í óbreyttri mynd og eru aðrar hugmyndir ræddar. vísir/ernir
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun mæla fyrir frumvarpi um náttúrupassa þann 27. janúar næstkomandi. Í frumvarpinu er lagt til að passinn gildi í þrjú ár, fyrir 18 ára og eldri og kosti 1.500 krónur. Hefja á innheimtu næsta haust.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ólga innan þingflokks sjálfstæðismanna vegna málsins. Þess er beðið að frumvarpið komist í þinglega meðferð og talið er ólíklegt að passinn verði afgreiddur af þingi í óbreyttri mynd.

Ingvar Pétur Guðbjörnsson, aðstoðarmaður Ragnheiðar Elínar Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem mælir fyrir frumvarpinu, segir enga vinnu í gangi í ráðuneytinu um að breyta úrfærslu þess.

Samtök ferðaþjónustunnar lögðust hart gegn náttúrupassanum þegar hann var kynntur í nóvember. Greint var frá því að samtökin hygðust þrýsta á ráðherrann að fara aðrar leiðir til tekjuöflunar fyrir ferðaþjónustuna, og lögðu til hækkun á gistináttaskatti.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er einnig verið að ræða útfærslu sem fæli í sér tekjuöflun með gjaldtöku á bílastæðum náttúruperla. Sú leið hefur ekki verið rædd sérstaklega í ráðuneytinu.

Samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, Framsókn, er einnig klofinn í afstöðu sinni til passans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×