Enski boltinn

Wenger ætlar að bjóða í miðjumann Sevilla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Krychowiak lék vel fyrir Sevilla á síðasta tímabili.
Krychowiak lék vel fyrir Sevilla á síðasta tímabili. vísir/getty
Samkvæmt frétt Telegraph er Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, að íhuga að gera tilboð í pólska miðjumanninn Grzegorz Krychowiak sem leikur með Sevilla.

Útsendarar Arsenal voru í Georgíu í gær þar sem Sevilla tapaði fyrir Barcelona, 5-4, í leiknum um Ofurbikar Evrópu.

Krychowiak er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að fara frá Sevilla ef lið býður 30 milljónir evra í hann. Pólverjinn á þrjú ár eftir af samningi sínum við Sevilla.

Hinum 25 ára gamla Krychowiak er ætlað að berjast við Francis Coquelin um stöðu varnarsinnaðs miðjumanns hjá Arsenal sem tapaði 0-2 fyrir West Ham í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Krychowiak, sem hefur leikið 24 landsleiki fyrir Pólland, hóf feril sinn hjá Bordeaux í Frakklandi. Hann lék þó aðeins tvo leiki fyrir félagið og var bæði lánaður til Remis og Nantes á meðan hann var hjá Bordeaux.

Sumarið 2012 gekk Krychowiak til liðs við Reims og lék með liðinu í tvo ár áður en hann var seldur til Sevilla síðasta sumar.

Krychowiak spilaði vel með Sevilla á síðasta tímabili og var m.a. valinn í lið ársins í spænsku úrvalsdeildinni. Þá vann hann Evrópudeildina með Sevilla og skoraði gegn Dnipro Dnipropetrovsk í úrslitaleik keppninnar í lok maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×