Enski boltinn

Enrique: Einu liðin á Spáni sem hafa efni á mér eru Barcelona og Real Madrid

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Enrique hefur verið að leika sér með unglingaliðinu undanfarna mánuði.
Enrique hefur verið að leika sér með unglingaliðinu undanfarna mánuði. Vísir/Getty
Jose Enrique, vinstri bakvörður Liverpool, segist ekki vilja yfirgefa félagið fyrir neitt annað lið á Spáni en Real Madrid og Barcelona. Enrique hefur undanfarna mánuði verið orðaður við ýmis spænsk lið en hann segist ekki vilja taka á sig launalækkun.

Enrique sem gekk til liðs við Liverpool frá Newcastle árið 2011 lék aðeins fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og átta tímabilið þar á undan.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur gefið honum til kynna að hann geti farið frá félaginu þar sem hann sé ekki fyrsti kostur en Enrique segist ekki vera á förum..

„Ég fékk tilboð frá spennandi liði á Spáni en það er erfitt að fara aftur þangað vegna efnahagsástandsins. Einu liðin sem geta borgað jafn vel og ensku liðin eru Real Madrid og Barcelona. Ef ég fengi að ráða myndi ég vera hér áfram eins lengi og ég get, ég mun ekki spila fyrir stærra lið en Liverpool.“

Enrique gaf til kynna að hann, Mario Balotelli og Fabio Borini væru einangraðir frá öðrum leikmönnum en þeir fóru ekki með liðinu í æfingarferðalag fyrir tímabilið.

„Ég, Balotelli og Borini erum einangraðir frá öðrum leikmönnum enda vill Rodgers losna við okkur. Ég á hinsvegar ár eftir af samningnum mínum og ég ætla að berjast fyrir sæti mínu í liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×