Lífið

Trans Ísland heldur árlega grill gleði í kvöld

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Trans Ísland hvetur vini og velunnara til þess að mæta með fjölskyldurnar á Klambratún í dag.
Trans Ísland hvetur vini og velunnara til þess að mæta með fjölskyldurnar á Klambratún í dag. Vísir/Stefán
Trans Ísland stendur fyrir grillgleði á Klambratúní í dag. Veislan hefst klukkan fimm og verður grill á staðnum. Fólk er hvatt til þess að koma með sinn eigin mat og drykki. Grillið er árlegur liður í starfsemi Trans Íslands félagsins ár hvert en allir meðlimir, vinir, velunnarar og bandamenn eru velkomnir að taka þátt.

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir er varaformaður Trans Íslands og hún segir að búast megi við miklum fjölda fólks. „Þessi árlegi viðburður hefur verið að stækka með árunum. Í fyrra komu rúmlega 60 manns og samkvæmt Facebook eigum við von á mun fleirum í ár. Þetta er frábært tækifæri fyrir alla að koma með fjölskyldur sínar og skemmta sér saman.“

Trans Ísland er hagsmunafélag undir Samtökunum 78 og tekur þátt í ýmsum störfum innan samtakanna. Félagsmenn taka þátt í gleðigöngunni sem fer fram aðra helgina í ágúst og er undirbúningur í fullum gangi. „Við erum búin að panta inn fánana sem við munum nota í göngunni og þetta mun bráðum allt smella saman. Það er alltaf gaman að taka þátt,“ segir Ugla.

Barátta transfólks á Íslandi hefur ekki fengið mikla umfjöllun og telur Ugla Íslendinga vera að dragast aftur úr.

„Umræðan og lagasetningar hér á landi eru ekki að að gerast á sama hraða og við erum að sjá í Bandaríkjunum og öðrum Evrópulöndum. Á Íslandi þarf enn þá að fá samþykki geðlækna og sálfræðinga til þess að fá hormónatöflur og fleiri meðferðir fyrir þá sem það vilja. Samkvæmt lögum á Íslandi er transfólk með kynáttunarvanda og flokkað sem geðveikt af heilbrigðiskerfinu. Þetta er ekkert annað en tímaskekkja og ekki í takt við það sem er að gerast úti í heimi. Við erum núna hópur að vinna saman að frumvarpi sem við viljum að verði lagt fram. Við höfum rætt það við nokkra þingmenn sem taka vel í það. Við vonumst til þess að ná að klára frumvarpið á næstunni og fá það í gegn. Trans Ísland er einnig að vinna í verkefni þar sem við tökum saman allar helstu spurningarnar sem transfólk fær og búum til myndband þar sem spurningarnar verða dregnar upp úr hatti og þeim verður svarað. Við erum enn að fá óviðeigandi spurningar sem eru oft byggðar á ranghugmyndum. Þannig viljum við upplýsa almenning sem er kannski ekki nógu vel að sér í þessum málum.“


Tengdar fréttir

Transfólki á Íslandi hefur fjölgað verulega

Transfólki á Íslandi hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Sífellt yngra fólk sækist nú eftir kynleiðréttingu og hlutföllin milli fjölda transkvenna og transkarla hafa jafnast. Geðlæknir segir að í samfélaginu hafi orðið viðhorfsbreyting í garð transfólks
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.