Innlent

Utanríkisráðherra krefst þess að umsátri um Gaza verði hætt

Heimir Már Pétursson skrifar
Utanríkisráðherra ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í gær og krafðist þess að Ísraelar hættu nú þegar umsátri sínu um Gaza.
Utanríkisráðherra ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í gær og krafðist þess að Ísraelar hættu nú þegar umsátri sínu um Gaza.
Utanríkisráðherra ítrekaði í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær að Íslendingar teldu brýnt að sátt næðist milli Palestínumanna og Ísrelsmanna á grundvelli tveggja ríkja lausnar. Landtaka Ísraelsmanna á hernumdum svæðum væri brot á alþjóðalögum.

Málefni Miðausturlanda með sérstakri áherslu á Palestínu voru til umræðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu að það ætti að vera hægt að leysa deilu Palestínumanna og Ísraela.

Lausnin hefði verið á borðinu í mörg ár, það er að segja tveggja ríkja lausnin.  Báðir deiluaðilar yrðu að sýna í verki vilja sinn til að ná sátt á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar og grípa ekki til  aðgerða sem græfu undan því markmiði.

Gunnar Bragi gagnrýndi áframhaldandi landtöku ísraelskra stjórnvalda á Vesturbakkanum og ítrekaði að landtökubyggðir þeirra væru brot á alþjóðalögum.

Íslendingar tækju undir með þeim sem skoruðu á Ísrael að láta af allri uppbyggingu ólöglegra byggða á herteknu svæðunum og þá alveg sérstaklega á Vesturbakkanum.

Utanríkisráðherra lýsti miklum vonbrigðum með að ekki hafi náðst samkomulag innan öryggisráðsins um að settur verði tímarammi fyrir lausn deilunnar og sagði hann brýnt að ráðið hefði meira frumkvæði hvað lausn hennar áhrærir.

Ástandið á Gaza væri enn mjög alvarlegt þar sem fólk léti lífið vegna vosbúðar.

Nauðsynlegt væri að bæta aðstæður á Gaza án tafa með uppbyggilegu samstarfi yfirvalda Palestínumanna og Ísraela. Létta þyrfti umsátri Ísraelsmanna um Gaza nú þegar þannig að efnahagslífið þar geti þryfist með eðlilegum hætti.

Þá lýsti Gunnar Bragi ánægju með aðild Palestínu að Alþjóðlega sakamáladómstólnum og hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×