Innlent

Árni Páll: Ríkisstjórnin upplýsi um afslátt til kröfuhafa

Höskuldur Kári Schram skrifar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir að ríkisstjórnin verði að upplýsa þjóðina um þann mikla afslátt sem verið sé að veita slitabúum föllnu bankanna í gegnum stöðugleikaframlagið. Hann hefur óskað eftir því að formenn allra flokka á Alþingi fundi um málið.

Indefence hópurinn hefur lýst yfir áhyggjum af stöðugleikasamningi ríkisstjórnarinnar við föllnu bankanna og telur að ekki sé búið að tryggja hagsmuni almennings í málinu. Nú er gert er ráð fyrir því að greiðslur verði í kringum 340 milljarðar en að mati Indefence dugar það ekki til að leysa þann gjaldeyrisvanda sem blasir að óbreyttu við íslensku efnahagslífi.

Árni Páll segir að ríkisstjórnin verði að upplýsa þjóðina um málið.

„Í vor voru samþykkt lög um stöðugleikaskatt sem gera ráð fyrir því að erlendir kröfuhafar greiði einhvers staðar í kringum 680 milljarða í ríkissjóð. Miðað við það sem við erum að heyra í fjölmiðlum núna stendur til að gefa þeim slíkan afslátt frá því að þeir komist út með peningana sína gegn því að borga 330 milljarða. Meira en helmings afsláttur.“

„Áður en stjórnvöld taka þá ákvörðun um að hleypa erlendum kröfuhöfum út og gefa þeim svona mikinn afslátt þá verða þau að útskýra það fyrir þjóðinni að það sé í lagi að veita allan þennan afslátt,“ segir Árni Páll.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×