Innlent

Sex hús rýmd á Eskifirði

Bjarki Ármannsson skrifar
Mynd tekin í Eskifirði í kvöld sem Veðurstofa Íslands deildi á Facebook.
Mynd tekin í Eskifirði í kvöld sem Veðurstofa Íslands deildi á Facebook. Mynd/Hjalti Sigurðsson
Sex hús hafa í kvöld verið rýmd á Eskifirði vegna flóðahættu. Að sögn Jónasar Wilhelmssonar Jensen, yfirlögregluþjóns á Eskifirði, var hlaup í Grjótá fyrr í kvöld og er nú unnið að því að reyna að laga árfarveginn.

„Áin er bara búin að ryðja sig, eins og maður segir,“ segir Jónas. „Það er búið að fara drullu- og grjóthlaup þarna niður. Það á eftir að skoða það betur hvort það hafi orðið einhverjar skemmdir en þær urðu allavega ekki á húsum.“

Átján manns búa í húsunum sex sem rýmd voru. Jónas segir ekki standa til að rýma fleiri hús.

Miklir vatnavextir hafa verið á Austurlandi í kvöld og meðal annars féll krapaflóð á íbúðarhús í Hrafnkelsdal inn af Jökuldal. Engin úrkoma er lengur á Eskifirði og segist Jónas ekki eiga von á frekari vandræðum í kvöld og nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×