Á vef Veðurstofunnar segir að aðal vindstrengur þessarar lægðar sé austan við lægðarmiðjuna og að nýjustu spár geri ráð fyrir að vindstrengurinn nái inn á landið austanvert með sunnan roki og sums staðar fárviðri við austurströndina í nótt.
Mikilvægt sé að fylgjast með veðurspám því braut lægðarinnar þurfi að ekki að breytast mikið til þess að miklar breytingar verði á veðurspám.
Fylgjast má með lægðinni nálgast landið í spilaranum hér að neðan og á heimasíðu Nullschool. Athugið að kortið sýnir ekki veðrið í beinni útsendingu heldur er um spákort að ræða sem uppfærist reglulega.
Sunnan og síðar suðaustan 8-15 metrar á sekúndu og dálítil él, þurrt að mestu um landið norðaustanvert, en slydda eða rigning með köflum sunnantil.
Vaxandi vindur þegar líður á daginn, austan og norðaustan 18-25 metrar á sekúndu seint í kvöld, hvassast suðaustan- og austantil og talsverð rigning þar, en úrkomuminna í öðrum landshlutum.
Suðlæg átt 20-30 metrar á sekúndu austantil á landinu seint í nótt, en annars mun hægari breytileg átt. Suðvestan 15-25 metrar á sekúndu upp úr hádegi á morgun, hvassast norðantil á landinu, en hægari annað kvöld. Skúrir eða él, en þurrt að mestu norðaustantil. Hiti um eða yfir frostmarki.