Innlent

Þátttaka í borgaralegri fermingu slær met

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fermingarfærslunni fyrr á þessu ári.
Frá fermingarfærslunni fyrr á þessu ári.
Þátttaka í borgaralegri fermingu Siðmenntar hefur slegið met. 322 börn hafa skráð sig fyrir næsta ári sem samsvarar 8 prósentum barna á fermingaraldri. Í tilkynningu frá Siðmennt segir að stjórn félagsins sé afar ánægt með þátttökuna og að hún sýni mikilvægi þess að börn eigi valkosti þegar komi að fermingarfræðslu.

Börnin munu sækja námskeið einu sinni í viku yfir tólf vikna tímabil og einnig er boðið upp á helgarnámskeið fyrir börn utan af landi. Vegna mikillar þátttöku verða einnig haldin sérstök námskeið á Akureyri og í Árborg. Umsjón kennslunnar er í höndum Jóhanns Björnssonar en auk hans verða 8 kennarar á námskeiðum vetrarins.

Í tilkynningunni segir að námskeiðin hafi hlotið góða einkunn barna sem og foreldra. Þeim sé miðað að þjálfa þátttakendur í gagnrýnni og skapandi hugsun og auk þess er þeim ætlað að auka færni í að takast á við siðferðilega álitamál.

„Þátttakendur fá síðan tækifæri til þess að bregðast við og taka afstöðu til ýmissa mála á gagnrýninn hátt og af siðferðilegum heilindum. Þessi mál eru m.a.: hvernig er að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi, fordómar og fjölmenning, hamingjan og tilgangur lífsins, skaðsemi vímuefna, sjálfsmynd unglinga og samskipti kynjanna, sorg og áföll, samskipti unglinga og fullorðinna, hverju getur maður trúað?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×