Innlent

Reyna að létta Perlu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Perla situr áfram á botni Reykjavíkurhafnar.
Perla situr áfram á botni Reykjavíkurhafnar. Vísir/Vilhelm
Unnið er að því að létta sanddæluskipið Perlu að framan svo hægt verði að hefjast handa við að ná því upp af botni Reykjavíkurhafnar. Það er meðal annars gert með því að fjarlægja þungt dælurör og þungar akkerisfestingar, sem vega um það bil tuttugu tonn.

„Það er unnið að aðgerðaráætlun sem verður lögð fram seinni partinn i dag. Þá kemur í ljós hvernig standa skal að verki við þessa næstu tilraun. Núna hefur verið unnið að því að létta skipið og dæla úr því en það er augljóst að það er enn mikill leki af framskipinu og það hefur verið verkefni að reyna að koma í veg fyrir það,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Mikil undirbúningsvinna hefur verið unnin síðustu daga. Meðal annars hafa festingar verið soðnar á skipið fyrir loftpúða, til að tryggja jafnvægi skipsins þegar það kemur upp, en búist er við að það verði mjög óstöðugt. Þá hafa kafarar leitað að götum á botni skipsins, en án árangurs.

Björgun, sem gerir út skipið, hyggst leggja fram aðgerðaráætlunina í dag, og í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvenær hafist verður handa við verkefnið. „Við þurfum að skoða þessi plögg og ákveða svo hvenær við byrjum dælinguna. Kannski á morgun, kannski á laugardag,“ segir Gísli.

Gísli segist ekki geta svarað til um hvort skipið sé ónýtt eða ekki. Það sé illa farið og búnaður eflaust ónýtur, en að Björgun þurfi að svara til um hvort það svari kostnaði að ráðast í endurbætur.  

Perla sökk í Reykjavíkurhöfn þann 2.nóvember síðastliðinn og hefur legið á hafsbotni síðan. Tilraunir til að koma henni á flot hafa engan árangur borið, nema hvað afturendi skipsins kom upp í einni tilrauninni, en framendinn losnaði ekki frá botni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×