Innlent

13 milljónir til flóttafólks á Grikklandi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Rúmlega sex hundruð þúsund flóttamenn hafa lagt leið sína til Grikklands á þessu ári.
Rúmlega sex hundruð þúsund flóttamenn hafa lagt leið sína til Grikklands á þessu ári. mynd/rauði krossinn
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að veita 13 milljónum króna til að svara kalli Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans til að fjármagna aðkallandi hjálparaðgerðir vegna neyðarástands á Grikklandi.

Rúmlega sex hundruð þúsund flóttamenn hafa lagt leið sína til Grikklands á þessu ári og hefur straumur fólks aukist sérstaklega mikið síðustu þrjá mánuði. Þar af hafa yfir þrjú hundruð þúsund manns komið til eyjarinnar Lesbos, sem er einungis tveir ferkílómetrar að stærð.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir að sjálfboðaliðar og starfsfólk gríska Rauða krossins hafi starfað dag og nótt við að koma hjálpargögnum til þeirra sem þurfi á að halda. Fjárhagslegt bolmagn grísku hjálparsamtakanna sé hins vegar takmarkað vegna mikils álags og þarfnist því aðstoðar annarra landsfélaga.

Aðgerðirnar fela meðal annars í sér mataraðstoð, heilbrigðisaðstoð, dreifingu hreinlætispakka og aðstoð við flóttafólk til að komast í samband við viðskila ættingja og ástvini.

Rauði krossinn á Íslandi sendi sendifulltrúa til Grikklands á dögunum, Pál Biering, dósent í geðhjúkrunarfræði, en það er í fyrsta sinn sem fulltrúi er sendur á vettvang til lands innan Evrópu á þessari öld, að því er segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×