Enski boltinn

Ólafur Páll: Liverpool er með flottasta framherjaparið í deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörvar Hafliðason og sérfræðingar hans í Messunni tóku fyrir gengi Liverpool í gær en lærisveinar Brendan Rodgers hafa aðeins náð í samtals tvö stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Hjörvar spurði Þorvald Örlygsson um það hversu heitt sé undir Brendan Rodgers og hvort að hann verði áfram knattspyrnustjóri Liverpool.

„Ég hef sagt það frá byrjun að hann þarf úrslit af því að menn voru að velta því fyrir sér hvort að hann yrði áfram eftir síðasta tímabil. Hann er undir pressu núna að það er á hreinu að hann verður að fara að ná í úrslit," sagði Þorvaldur.

Danny Ings kom inn á í hálfleik og kom Liverpool í 1-0 á móti Norwich í leiknum á Anfield um síðustu helgi.

„Hann gerði þetta frábærlega vel og skoraði gott mark, ekta senteramark," sagði Ólafur Páll Snorrason um mark Danny Ings en hann er ekki viss um að Ings fái mikið af tækifærum þegar Liverpool með með þá Christian Benteke og Daniel Sturridge.

„Litlu leikmennirnir sem koma í stóru liðin þeim er oft hent út á kantinn og látnir spila út úr stöðu. Það endar síðan vanalega þannig að þeir standa sig ekki nægilega vel og ná ekki fótfestu. Þess vegna eru þeir oft sendir annað," sagði Ólafur Páll.

„Liverpool er ekki að spila illa og þeir fá dauðafæri til að klára þennan leik," sagði Þorvaldur og Ólafur Páll er ánægður með framherjaparið Christian Benteke og Daniel Sturridge.

„Með þá saman er Liverpool með flottasta framherjaparið í deildinni en þá verður Sturridge að vera búinn að ná sér af meiðslunum og spila þessa leiki. Ef svo er þá eru þeir að mínu mati flottasta sóknarlínan í deildinni," sagði Ólafur Páll.

Það er hægt að sjá alla umræðu þeirra félaga um Liverpool og framtíð liðsins í vetur með því að smella á myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×