Innlent

Reglulega keyrt á vegavinnumenn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Reglulega koma upp atvik hér á landi þar sem vegavinnumenn slasast þegar ekið er á þá við vinnu. Vegagerðin segir beinlínis hættulegt að vinna við vegi, þar sem ökumenn taki ekki tillit til þeirra sem þar vinna. 

Í fréttum okkar í vikunni sögðum við frá því að keyrt hefði verið á vegavinnumann á Hellisheiði og hann slasast illa. Samstarfsmenn hans segjast leggja líf sitt í hættu á hverjum degi á vinnusvæðinu. Ökumenn virði ekki þrengingar og hraðatakmarkanir á vinnusvæðum, og að það hafi aðeins verið tímaspursmál hvenær slys yrði, enda eldri dæmi um það.

„Það er kannski ekki algengt en það kemur alltof oft fyrir. Það eru nokkur dæmi um það á síðustu árum að ekið hefur verið á menn á vinnu við veg eða á bíl sem þeir eru í,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. 

Rannsókn sem gerð var um umferðarhraða á vinnusvæðum í fyrra leiddi í ljós að þeir sem ekki hægja á sér séu mun flerii en þeir sem gera það.

„Þetta er viðvarandi vandamál. Við erum búin að vita af því lengi að það eru allt, allt of fáir sem hægja á sér. Maður hreinlega skilur það ekki. Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að þarna liggur líf við,“ segir G. Pétur. 

Vegagerðin hefur undanfarin ár unnið að því að bæta vinnusvæðamerkingar og lagt áherslu á að starfsfólk sé vel sýnilegt. Það dugi þó ekki til. Erfitt sé að finna lausn á málinu.

„Lögreglan á í sínum vandræðum bara með að sinna því hlutverki sem hún á að sinna og ef þetta bætist við þá yrði líka að koma inn eitthvert fé til þess. Þetta er hættulegt, það er hættulegt að vinna við veg, sérstaklega vegna þess að fólk tekur ekki tillit til þeirra sem þar eru að vinna,“ segir hann. 



Tengdar fréttir

Vegavinnumenn á Hellisheiði hætta lífi sínu á hverjum degi

Vegavinnumenn á Hellisheiði segjast hætta lífi sínu á hverjum degi á svæðinu, þar sem hraðatakmarkanir og merkingar séu ekki virtar. Ökumaðurinn, sem keyrði á verkamann á Hellisheiði um helgina og ók svo í burtu, er enn ófundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×