Innlent

Fékk sendan fingurinn eftir að ekið var utan í hann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ökumaðurinn ók af vettvangi og sendi manninum skilaboð með fingrabendingum.
Ökumaðurinn ók af vettvangi og sendi manninum skilaboð með fingrabendingum. Vísir/Páll
Þrjú rifbein brotnuðu hjá starfsmanni við vegavinnu á Helliðsheiði á föstudagsmorgun eftir að ekið var utan í hann. Ökumaðurinn ók af vettvangi og sendi manninum skilaboð með fingrabendingum. Starfsmaðurinn er einnig með marinn kviðvegg og sært milta að því er betri helmingur hans greinir frá á Facebook.

Unnið er að tvöföldun vegarins á Hellisheiði þar sem starfsmaðurinn hefur verið við vinnu undanfarnar vikur.

„Ég er svo reið, sorry, svekkt og sár,“ segir kona mannsins í færslu á Facebook sem á sjöunda hundrað manns hafa deilt. Hún óttast greinilega um mann sinn og segir vinnu hans stórhættulega. Maðurinn lauk vinnudegi en kenndi sér meins síðar um daginn. Var málið í kjölfarið tilkynnt til lögreglu.

Lögegla leitar hvíts jepplings

„Ökumaðurinn var greinilega ekki að fýla að þarna væru menn við vinnu og hann hafi þurft að hægja á sér og hinkra stutta stund meðan trailer fullur af jarðvegsefni sturtaði á götuna,“ upplýsir hún. Maður hennar hafi farið úr gröfunni til að leiðbeina samstarfsmanni og stýra umferðinni. Tveir bílar hafi hlýtt athugasemdum og numið staðar en ökumaður þriðja bílsins gefið í og stefnt beint á manninn hennar. Hann hafi náð að forða sér en bíllinn þó strokist við hann með fyrrnefndum afleiðingum.

Ökumaður bílsins, hvíts jepplings sem líklega er af gerðinni Honda CRV, sendi honum svo fingurinn og hélt áfram för sinni að sögn konunnar.

Lögregla rannsakar málið sem slys og biður um að ökumaðurinn gefi sig fram svo hinn slasaði fái bætur frá réttu tryggingafélagi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×