Innlent

Vegavinnumenn á Hellisheiði hætta lífi sínu á hverjum degi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Vegavinnumenn á Hellisheiði segjast hætta lífi sínu á hverjum degi á svæðinu, þar sem hraðatakmarkanir og merkingar séu ekki virtar. Ökumaðurinn, sem keyrði á verkamann á Hellisheiði um helgina og ók svo í burtu, er enn ófundinn.

Kolbeinn Sigurðsson var við vegavinnu á Hellisheiði þegar keyrt var á hann, en þar er verið að tvöfalda veginn. Hvítur jepplingur tók þá fram úr tveimur kyrrstæðum bílum og fór inn á öfugan vegarhelming á miklum hraða.  Afleiðingarnar urðu þær að þrjú rifbein Kolbeins brotnuðu, kviðveggur marðist og milta særðist. Hann segir ólíðandi hvernig ökumenn keyra um heiðina. Þeir virði hvorki merkingar né hraðatakmarkanir.

„Við erum bara í stórhættu allan daginn. Ístak er með verkamenn þarna sem eru á vegunum og þeir eru í stórhættu. Ökumenn pæla ekkert í þeim. Við tölum oft um það að við þökkum fyrir að komast heilir heim á hverjum einasta degi. “ segir Kolbeinn.

Ökumaðurinn sem keyrði á hann stöðvaði ekki bílinn eftir slysið heldur keyrði áfram leiðar sinnar. Lögreglan lýsti eftir ökumanninum í gær en hann er enn ófundinn. Verið er að rannsaka málið og fara yfir hraðamyndavélar á svæðinu.

„Samkvæmt því sem að lögreglan sem tók skýrslu af mér og læknirinn sögðu þá er þetta eiginlega bara tilraun til manndráps. Hann tekur fram úr umferð sem er stöðvuð vegna framkvæmda. Hann stofnar mínu lífi í hættu og hann stofnar sínu lífi í hættu,“ segir Kolbeinn.

Yfirmaður Kolbeins sagði í viðtali við mbl.is fyrr í sumar að það væri tímaspursmál hvenær slys yrði á starfsfólki á Hellisheiði þrátt fyrir að merkingar séu þar mjög sýnilegar.

„Þetta tekur á okkur alla, það er enginn spurning. Þetta er enn af félögunum og það er alltaf erfitt þegar svona skeður,“ segir Barði Kristjánsson verkstjóri.

Barði segir tillitsleysi ökufólks óboðlegt.

„Við reyndum að hægja á bílum hérna fyrir nokkrum dögum og við fengum bara fokkmerkið. Þeir bara eins og sagt er slógu ekki af,“ segir hann og vill sjá umbætur.

„Það þarf bara að herða eftirlit á vinnusvæðum og fara að taka upp færanlega myndavélar þannig að ef keyrt er of hratt þá kemur sektin heim um lúguna. Þetta er bara hættulegt umhverfi, og ekki boðlegt neinum,“ segir Barði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×