Innlent

Samþykkt að draga samþykktina til baka

Bjarki Ármannsson skrifar
Dagur sagði á fundinum í kvöld að málinu væri nú lokið.
Dagur sagði á fundinum í kvöld að málinu væri nú lokið. Vísir/Vilhelm
Tvær samhljóða tillögur um að draga til baka samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá því í síðustu viku um að sniðganga ísraelskar vörur voru samþykktar á aukafundi borgarstjórnar í kvöld. Tillögurnar voru samþykktar með fimmtán greiddum atkvæðum.

Ákvörðunin um að sniðganga ísraelskar vörur var samþykkt á síðasta fundi Bjarkar Vilhelmsdóttur í borgarstjórn og að hennar tillögu. Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu um ákvörðunina og hefur borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, sagt að um mistök hafi verið að ræða. Það hafi haft áhrif á ákvörðunina að um síðustu tillögu Bjarkar í borgarstjórn væri að ræða.

Dagur sagði á fundinum í kvöld að málinu væri með þessu lokið en borgarfulltrúar minnihlutans gagnrýndu það að greinargerð fundarins þar sem tillagan var samþykkt væri ekki dregin til baka. Jafnframt kallaði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, eftir afsögn Dags vegna þess skaða sem samþykktin hefði þegar valdið.

Fundurinn hófst klukkan fimm og lauk honum stuttu eftir klukkan níu í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×