Enski boltinn

Messi: Rooney er einstakur leikmaður

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Wayne Rooney, fyrirliði enska landsliðsins.
Wayne Rooney, fyrirliði enska landsliðsins. Vísir/Getty
Einn besti knattspyrnumaður heims, Lionel Messi, kom Wayne Rooney til varnar í enskum miðlum á dögunum en Rooney hefur ekki náð sér á strik í upphafi tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. Sagði hann að Rooney væri einstakur leikmaður sem væri ekki hægt að bera saman við aðra.

Rooney hefur átt í erfiðleikum með að koma boltanum í netið í treyju Manchester United en ef litið er framhjá þremur mörkum sem hann gerði gegn Club Brugge á dögunum hefur honum ekki tekist að skora í keppnisleik í rúma fimm mánuði. Kom síðasta mark hans í ensku úrvalsdeildinni í 3-1 sigri á Aston Villa þann 4. apríl.

Rooney komst á blað með enska landsliðinu í báðum leikjum liðsins í nýafstöðnu landsleikjahléi úr tveimur vítaspyrnum en með seinna markinu komst hann upp fyrir Sir Bobby Charlton og er nú markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi.

„Hann er einstakur leikmaður sem ekki hægt er að bera saman við aðra, svona leikmaður kemur kannski einu sinni í hverri kynslóð. Hann er með ótrúlega hæfileika, hann er teknískur ásamt því að vera einn sterkasti leikmaður sem ég hef mætt og hann vinnur vel fyrir lið sitt. Sigurvilji hans gerir það að verkum að það er enginn eins og hann,“ sagði Messi.

„Þetta er eins og með mig og Argentínu, að slá met yfir flesta landsleiki og mörk skiptir ekki máli ef þú vinnur ekkert og hann mun verða einbeittur að ná árangri á EM næsta sumar. Hann mun alltaf hugsa um liðið fyrst áður en hann hugsar um eigin árangur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×