Fótbolti

Eyjólfur: Stórkostlegur sigur hjá strákunum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U21 árs landsliðsins.
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U21 árs landsliðsins. Vísir/ernir
„Gegn jafn öflugu liði og Frakklandi er þetta hreint út sagt stórkostlegur sigur,“ sagði Eyjólfur Sverrisson, þjálfari íslenska U21 árs landsliðsins, eftir leikinn í dag.

„Við getum verið virkilega stoltir af strákunum, þeir voru mjög þéttir og lokuðu vel á þá. Við vissum að þeir væru hrikalega öflugir einn á einn og færslan á liðinu leysti það fullkomnlega. Það var mikil hreyfing á strákunum og það er töluverð þreyta en það eru sem betur fer allir heilir.“

Lærisveinar Eyjólfs fengu sannkallaða draumabyrjun þegar dæmd var vítaspyrna og rautt spjald á markmann franska liðsins fyrir brot á Ævari.

„Eftir frábæra sókn hjá okkur sem við sköpuðum við fáum við þetta sem er virkilega ánægjulegt. Við náðum að skapa okkur töluvert af færum í leiknum. Eftir jöfnunarmarkið þurftum við að núllstilla okkur aftur og reyna að halda haus sem við gerðum.“

Eyjólfur sagði að undirbúningurinn fyrir leikinn gegn Norður-Írum hæfist strax í kvöld en erfitt hefur reynst fyrir þjálfarana að afla sér upplýsinga um liðið.

„Við fáum leikinn þeirra sendan frá Skotlandi og við þurfum að hafa hraðar hendur að leikgreina það og skoða möguleikana. Við vitum lítið um þá eins og er en við fögnum eitthvað í kvöld og hefjum undirbúninginn á morgun fyrir næsta leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×