Uppgjörið: FH - Þróttur 3-0 | FH náði í þrjú mikilvæg stig með sigri gegn Þrótti Hjörvar Ólafsson skrifar 28. ágúst 2025 19:48 Thelma Karen Pálmadóttir átti margar góðar rispur á kantinu hjá FH-liðinu. Vísir/Ernir FH nældi sér í þrjú mikilvæg stig í baráttu sinni við Þrótt um annað sætið í Bestu-deild kvenna í fótbolta þegar liðin áttust við í 15. umferð deildarinnar á Kaplakrikavelli í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 3-0 FH í vil. Liðin sátu í öðru og þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn en FH var í öðru sæti með 32 sæti og Þróttur í því þriðja með 29 stig. Því var um mikilvægan leik að ræða í baráttunni um sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð. FH var heilt yfir sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu fleiri færi til þess að brjóta ísinn. Maya Lauren Hansen átti til að mynda skot í þverslána og Elísa Lana Sigurjónsdóttir átti skot sem var bjargað á línu. Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, skallar boltann frá en hún átti að vanda góðan leik. Vísir/Ernir Það var svo Thelma Lóa Hermannsdóttir sem náði forystunni fyrir FH með marki sínu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Arna Eiríksdóttir átti þá langa stungusendingu úr hjarta varnarinnar hjá FH. Thelma Lóa lyfti boltanum snyrtilega yfir Mollee Swift í marki Þróttar og staðan 1-0 heimakonum í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Þróttarar komu af meiri krafti inn í seinni hálfleikinn og Unnur Dóra Bergsdóttir fékk fínt færi til þess að jafna metin fyrir gestina en skot hennar fór yfir markið og í þaknetið. Maya Hansen fékk svo gott færi til þess að tvöfalda forskot FH um miðjan seinni háfleik þegar hún komst inn í sendingu til baka á Mollee en skot hennar fór hárfínt framhjá stönginni. Mollee Swift hafði í nógu að snúast í þessari viðureign. Vísir/Ernir Katla María Þórðardóttir kom FH í 2-0 þegar hún skoraði með hnitmiðuðum skalla rúmlega tíu mínútum fyrir leikslok. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir átti þá góða hornspyrnu og Katla María skallaði boltann í netið á fjærstönginni. Berglind Freyja Hlynsdóttir innsiglaði svo sigur FH með marki rétt fyrir lok venjulegs leiktíma en hún skoraði skömmu eftir að hún kom inná sem varamaður. Eftir þennan sigur er FH með 35 stig í öðru sæti og er fimm stigum frá Breiðabliki sem trónir á toppi deildarinnar. Guðni Eiríksson á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. Vísir/Ernir Guðni Eiríksson: Hátt orkustig í liðinu allan leikinn „Frammistaðan var frábær í þessum leik og mér fannst við klárlega verðskulda þennan sigur. Við hefðum raunar átt að klára þennan leik miklu fyrr en við gerðum að mínu mati. Við unnum svo sannarlega fyrir þessum sigri,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, að leik loknum. „Það var gríðarlega hátt orkustig í liðinu eftir kærkomna hvíld. Það er erfitt að eiga við okkur þegar við leggjum jafn mikil hlaup og við gerðum í kvöld í leikina okkar. Það var gríðarlegur baráttundi og vilji til þess að sækja þessi þrjú mikilvægu stig og það gladdi mig mjög mikið,“ sagði Guðni enn fremur. „Við vildum kvitta fyrir skítaspilamennsku í tapinu gegn Þrótti í fyrri umferðinni. Það var ljóst að leikmenn vildu svara fyrir það tap hérna á heimavelli og ná í stigin þrjú fyrir stuðningsmenn sína,“ sagði hann en FH er eftir þennan sigur fimm stigum á eftir Blikum sem eru á toppi deildarinnar og liðin eigast við í næstu umferð deildararinnar. „Í næsta leik mætum við Breiðabliki og staðan í leikjum liðanna í deild og bikar í sumar er 1-1 og við viljum hafa yfirhöndina þegar þeim leik lýkur. Nú fáum við viku til þess að búa okkur undir næsta leik og við fókuserum bara á einni leik í einu og sjáum hverju það skilar þegar upp verður staðið,“ sagði Guðni um komandi toppslag. Ólafur Helgi Kristjánsson: Vantaði upp á alla grunnþætti leiksins „Þetta var ekki góður leikur af okkar hálfu. Það sem er oft talað um sem grunnatriði í fótboltaleikjum, það er að vinna návígi og barátta, við vorum undir í því lungann úr leiknum. Því fór sem fór,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar, súr í leikslok. „Spilið okkar á boltann var svo óhreint og það var eitthvað óöryggi í sendingum og uppspili okkar sem er ólíkt okkur. Við vildum stýra leiknum með því að halda vel í boltann og sækja í þau svæði sem væru í boði og það gekk ekki upp,“ sagði Ólafur Helgi þar að auki. „FH-liðið var í raun bara miklu betra í þessum leik og frammistaðan okkar í heild sinni bara verðskuldaði ekki meira en raun bar vitni. Við náðum að tengja saman nokkrar sendingar og skapa nokkrar stöður í upphafi seinni hálfleiks en um leið og þær komust í 2-0 þá var allt loft úr okkur,“ sagði hann um þróun leiksins. „Mitt hlutverk núna er að berja trú í leikmenn liðsins ef hún er farin að dvína. Við getum ekki bara lagt upp laupana núna þrátt fyrir að það sé lengra í FH eftir þetta tap. Leikmenn liðsins verða að gera það upp við sig hvað þeir vilja gera í komandi leikjum. Mér finnst staðan í töflunni í raun endurspegla hvernig liðin hafa verið að spila upp á síðkastið og þú færð eiginlega alltaf það sem þú átt skilið,“ sagði Ólafur Helgi um stöðu mála hjá Þróttaraliðinu. Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar. Vísir/Ernir Atvik leiksins Annað mark FH súmmeraði svolítið þennan leik upp. Letilegur varnarleikur Þróttaraliðsins í föstu leikatriði og grimmd í Kötlu María sem skallaði boltann í netið. FH-liðið setti mun meiri orku og grimmd í þennan leik og uppskáru eins og þeir sáðu. Stjörnur og skúrkar Thelma Lóa og Thelma Karen voru gríðarlega ógnandi á sitt hvorum kantinum í þessum leik og Elís Lana var sívinnandi inni á miðsvæðinu. Arna Eiríksdóttir var svo eins og klettur í vörn FH auk þess að leggja upp markið sem kom heimakonum á bragðið. Mollee Swift, markvörður Þróttar, verður seint sökuð um þetta tap en hún varði nokkrum sinnum frábærlega í fyrri hálfleik og hélt raunar liði sínu inni í þessum leik. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, þeir Hreinn Magnússon, Eysteinn Hrafnkelsson, Jón Reynir Reynisson og Reynir Ingi Finnsson höfðu góð tök á þessum leik og fá sjö í einkunn fyrir prýðilega dómgæslu. Stemming og umgjörð Það var vel mætt í rjómablíðuna í Kaplakrika í kvöld og fínasta stemming í stúkunni. Sigrinum mikilvæga var vel fagnað af FH-ingum bæði innan vallar sem utan. FH-ingar geta farið að láta sig dreyma um Íslandsmeistaratitilinn með þessum sigri og vonandi fá leikmenn liðsins þann stuðnign sem þær eiga skilið í komandi verkefnum þeirra. FH Þróttur Reykjavík Besta deild kvenna
FH nældi sér í þrjú mikilvæg stig í baráttu sinni við Þrótt um annað sætið í Bestu-deild kvenna í fótbolta þegar liðin áttust við í 15. umferð deildarinnar á Kaplakrikavelli í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 3-0 FH í vil. Liðin sátu í öðru og þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn en FH var í öðru sæti með 32 sæti og Þróttur í því þriðja með 29 stig. Því var um mikilvægan leik að ræða í baráttunni um sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð. FH var heilt yfir sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu fleiri færi til þess að brjóta ísinn. Maya Lauren Hansen átti til að mynda skot í þverslána og Elísa Lana Sigurjónsdóttir átti skot sem var bjargað á línu. Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, skallar boltann frá en hún átti að vanda góðan leik. Vísir/Ernir Það var svo Thelma Lóa Hermannsdóttir sem náði forystunni fyrir FH með marki sínu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Arna Eiríksdóttir átti þá langa stungusendingu úr hjarta varnarinnar hjá FH. Thelma Lóa lyfti boltanum snyrtilega yfir Mollee Swift í marki Þróttar og staðan 1-0 heimakonum í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Þróttarar komu af meiri krafti inn í seinni hálfleikinn og Unnur Dóra Bergsdóttir fékk fínt færi til þess að jafna metin fyrir gestina en skot hennar fór yfir markið og í þaknetið. Maya Hansen fékk svo gott færi til þess að tvöfalda forskot FH um miðjan seinni háfleik þegar hún komst inn í sendingu til baka á Mollee en skot hennar fór hárfínt framhjá stönginni. Mollee Swift hafði í nógu að snúast í þessari viðureign. Vísir/Ernir Katla María Þórðardóttir kom FH í 2-0 þegar hún skoraði með hnitmiðuðum skalla rúmlega tíu mínútum fyrir leikslok. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir átti þá góða hornspyrnu og Katla María skallaði boltann í netið á fjærstönginni. Berglind Freyja Hlynsdóttir innsiglaði svo sigur FH með marki rétt fyrir lok venjulegs leiktíma en hún skoraði skömmu eftir að hún kom inná sem varamaður. Eftir þennan sigur er FH með 35 stig í öðru sæti og er fimm stigum frá Breiðabliki sem trónir á toppi deildarinnar. Guðni Eiríksson á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. Vísir/Ernir Guðni Eiríksson: Hátt orkustig í liðinu allan leikinn „Frammistaðan var frábær í þessum leik og mér fannst við klárlega verðskulda þennan sigur. Við hefðum raunar átt að klára þennan leik miklu fyrr en við gerðum að mínu mati. Við unnum svo sannarlega fyrir þessum sigri,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, að leik loknum. „Það var gríðarlega hátt orkustig í liðinu eftir kærkomna hvíld. Það er erfitt að eiga við okkur þegar við leggjum jafn mikil hlaup og við gerðum í kvöld í leikina okkar. Það var gríðarlegur baráttundi og vilji til þess að sækja þessi þrjú mikilvægu stig og það gladdi mig mjög mikið,“ sagði Guðni enn fremur. „Við vildum kvitta fyrir skítaspilamennsku í tapinu gegn Þrótti í fyrri umferðinni. Það var ljóst að leikmenn vildu svara fyrir það tap hérna á heimavelli og ná í stigin þrjú fyrir stuðningsmenn sína,“ sagði hann en FH er eftir þennan sigur fimm stigum á eftir Blikum sem eru á toppi deildarinnar og liðin eigast við í næstu umferð deildararinnar. „Í næsta leik mætum við Breiðabliki og staðan í leikjum liðanna í deild og bikar í sumar er 1-1 og við viljum hafa yfirhöndina þegar þeim leik lýkur. Nú fáum við viku til þess að búa okkur undir næsta leik og við fókuserum bara á einni leik í einu og sjáum hverju það skilar þegar upp verður staðið,“ sagði Guðni um komandi toppslag. Ólafur Helgi Kristjánsson: Vantaði upp á alla grunnþætti leiksins „Þetta var ekki góður leikur af okkar hálfu. Það sem er oft talað um sem grunnatriði í fótboltaleikjum, það er að vinna návígi og barátta, við vorum undir í því lungann úr leiknum. Því fór sem fór,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar, súr í leikslok. „Spilið okkar á boltann var svo óhreint og það var eitthvað óöryggi í sendingum og uppspili okkar sem er ólíkt okkur. Við vildum stýra leiknum með því að halda vel í boltann og sækja í þau svæði sem væru í boði og það gekk ekki upp,“ sagði Ólafur Helgi þar að auki. „FH-liðið var í raun bara miklu betra í þessum leik og frammistaðan okkar í heild sinni bara verðskuldaði ekki meira en raun bar vitni. Við náðum að tengja saman nokkrar sendingar og skapa nokkrar stöður í upphafi seinni hálfleiks en um leið og þær komust í 2-0 þá var allt loft úr okkur,“ sagði hann um þróun leiksins. „Mitt hlutverk núna er að berja trú í leikmenn liðsins ef hún er farin að dvína. Við getum ekki bara lagt upp laupana núna þrátt fyrir að það sé lengra í FH eftir þetta tap. Leikmenn liðsins verða að gera það upp við sig hvað þeir vilja gera í komandi leikjum. Mér finnst staðan í töflunni í raun endurspegla hvernig liðin hafa verið að spila upp á síðkastið og þú færð eiginlega alltaf það sem þú átt skilið,“ sagði Ólafur Helgi um stöðu mála hjá Þróttaraliðinu. Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar. Vísir/Ernir Atvik leiksins Annað mark FH súmmeraði svolítið þennan leik upp. Letilegur varnarleikur Þróttaraliðsins í föstu leikatriði og grimmd í Kötlu María sem skallaði boltann í netið. FH-liðið setti mun meiri orku og grimmd í þennan leik og uppskáru eins og þeir sáðu. Stjörnur og skúrkar Thelma Lóa og Thelma Karen voru gríðarlega ógnandi á sitt hvorum kantinum í þessum leik og Elís Lana var sívinnandi inni á miðsvæðinu. Arna Eiríksdóttir var svo eins og klettur í vörn FH auk þess að leggja upp markið sem kom heimakonum á bragðið. Mollee Swift, markvörður Þróttar, verður seint sökuð um þetta tap en hún varði nokkrum sinnum frábærlega í fyrri hálfleik og hélt raunar liði sínu inni í þessum leik. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, þeir Hreinn Magnússon, Eysteinn Hrafnkelsson, Jón Reynir Reynisson og Reynir Ingi Finnsson höfðu góð tök á þessum leik og fá sjö í einkunn fyrir prýðilega dómgæslu. Stemming og umgjörð Það var vel mætt í rjómablíðuna í Kaplakrika í kvöld og fínasta stemming í stúkunni. Sigrinum mikilvæga var vel fagnað af FH-ingum bæði innan vallar sem utan. FH-ingar geta farið að láta sig dreyma um Íslandsmeistaratitilinn með þessum sigri og vonandi fá leikmenn liðsins þann stuðnign sem þær eiga skilið í komandi verkefnum þeirra.