Enski boltinn

Fyrsta skrefið í átt að því að leysa Isak málið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Woltemade í leik með þýska landsliðinu í Þjóðadeildinni í sumar.
Nick Woltemade í leik með þýska landsliðinu í Þjóðadeildinni í sumar. EPA/ANNA SZILAGYI

Newcastle virðist loksins vera að landa framherja og um leið er félagið að komast nær því að leysa vandamálið með sænska framherjann sinn Alexander Isak.

Breska ríkisútvarpið segir frá því í kvöld að Newcastle sé að kaupa þýska unglingaliðsframherjann Nick Woltemade frá Stuttgart. Woltemade er 23 ára gamall og var orðaður við Bayern München í sumar en ekkert varð að því að hann færi þangað.

Woltemade er á leiðinni í læknisskoðun og eftir hana verður hann orðinn leikmaður Newcastle.

BBC hefur þó engar heimildir um kaupverðið en það má búast við því að félagið þurfi þar að slá félagsmetið. Það eru þær 63 milljónir punda sem Isak kostaði á sínum tíma þegar hann kom frá Real Sociedad.

Isak er staðráðinn í að komast til Liverpool en Newcastle vill ekki selja hann fyrr en félagið sé búið að fá tvo framherja í staðinn. Newcastle hefur þegar hafnað 110 milljón punda tilboði Liverpool í Isak en sænski framherjinn mun eflaust kosta ensku meistarana 140 til 150 milljónir punda.

Woltemade kom til Stuttgart á frjálsri sölu fyrir rúmu ári síðan og vann sér fljótlega sæti í liðinu. Hann skoraði 17 mörk í 33 leikjum á leiktíðinni og þar á meðal var mark í bikarúrslitaleiknum þar sem Stuttgart vann.

Hann fór einnig á kostum með 21 árs landsliði Þjóðverja og varð markahæsti maður Evrópumótsins í sumar með sex mörk. Þýskaland fór í úrslitaleikinn en tapaði fyrir Englandi 3-2.

Woltemade hefur verið líkt við þá Jamal Musiala og Lionel Messi en hann er tveir metrar á hæð og hefur því verið kallaður „Tveggja metra Messi-Musiala“. Ekki slæmum að líkjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×