Fótbolti

Messi skaut Inter Miami í úr­slita­leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi getur unnið deildabikar Norður- og Mið-Ameríku með Inter Miami í annað sinn á sunnudaginn.
Lionel Messi getur unnið deildabikar Norður- og Mið-Ameríku með Inter Miami í annað sinn á sunnudaginn. getty/Peter Joneleit

Lionel Messi sneri aftur á völlinn eftir meiðsli og skoraði tvö mörk þegar Inter Miami tryggði sér sæti í úrslitum deildabikars Norður- og Mið-Ameríku með 3-1 sigri á Orlando City.

Messi missti af tveimur síðustu leikjum Inter Miami vegna meiðsla aftan í læri en var mættur aftur í byrjunarliðið gegn Orlando City í gær.

Gestirnir frá Flórída náðu forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Marco Pasalic kom boltanum í netið.

Messi jafnaði metin úr vítaspyrnu á 77. mínútu og tveimur mínútum fyrir leikslok skoraði hann svo öðru sinni eftir sendingu frá sínum gamla liðsfélaga í Barcelona, Jordi Alba. Telasco Segovia gulltryggði svo sigur Inter Miami í uppbótartíma.

Dagur Dan Þórhallsson lék ekki með Orlando City í leiknum í gær. Liðið spilaði manni færri síðasta stundarfjórðunginn eftir að David Brekalo fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Alls fór gula spjaldið níu sinnum á loft í leiknum.

Í úrslitaleiknum á sunnudaginn mætir Inter Miami Seattle Sounders á Lumen Field í Seattle. Inter Miami vann keppnina fyrir tveimur árum eftir sigur á Nashville í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×