Lífið

Frumsýna myndband við lagið Flesk á Lofti Hosteli

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Mynd/Stilla
Í kvöld verður frumsýnt myndband við lagið Flesk. Lagið er smíð tónlistarkonunnar Katrínar Helgu Andrésdóttur sem einna þekktust er fyrir að vera meðlimur í Reykjavíkurdætrum og Hljómsveittri.

„Þetta er samstarfsverkefni mitt, Sóleyjar og Helga Björns en er svona mín hugmynd,“ segir Katrín Helga en bæði Sóley og Helgi rappa í myndbandinu.

„Þau eru bæði að rappa í laginu, Helgi hefur nú eitthvað rappað áður en Sóley er að gera það í fyrsta skipti. Þau gerðu það bæði eins og algjörir fagmenn.“

Lagið fjallar um dýraníð og segir Katrín að vissu leyti um hugvekju að ræða sem hún hafi reynt að gera sem aðgengilegasta. „Ég vissi að Sóley væri með ástríðu fyrir þessu eins og ég því hún er virk inni á vegan-samfélagsmiðlum. Svo vildi ég fá einhvern sem svona mótvægi, sem myndi ná til annars hóps og gæti verið svona svolítill talsmaður kjötætunnar,“ segir Katrín en hún fékk Helga í það verk.

Myndbandinu við Flesk er leikstýrt af Sunnu Axelsdóttur og við sama tilefni verður einnig frumsýnt myndband við nýtt lag með hljómsveitinni Krika sem Katrín Helga er einnig meðlimur í. Frumsýningarnar fara fram á Loft Hosteli í Bankastræti og hefst viðburðurinn klukkan 21.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×