Enski boltinn

Forráðamenn Manchester City vongóðir um að landa De Bruyne

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kevin De Bruyne, leikmaður Wolfsburg.
Kevin De Bruyne, leikmaður Wolfsburg. Vísir/Getty
Forráðamenn Manchester City eru vongóðir um að félaginu takist að ganga frá kaupunum á Kevin De Bruyne, leikmanni VFL Wolfsburg, í þýsku úrvalsdeildinni fyrir leik Manchester City gegn Chelsea næstu helgi.

Takist það gæti De Bruyne leikið sinn fyrsta leik fyrir City gegn félaginu sem seldi hann til Þýskalands.

De Bruyne sem var á dögunum valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili var á mála hjá Chelsea í tvö ár en hann eyddi þeim á láni hjá uppeldisfélagi sínu, Genk í Belgíu, og Werder Bremen í Þýskalandi.

Lék hann aðeins þrjá leiki fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni og níu leiki alls áður en hann gekk til liðs við Wolfsburg fyrir 18 milljónir punda.

Hjá Wolfsburg hefur hann blómstrað en hann lagði upp 20 mörk á síðasta tímabili ásamt því að bæta við tíu mörkum upp á eigin spýtur. Síðasta tilboð Manchester City hljómar upp á 46 milljónir punda en talið er að Wolfsburg neiti öllum tilboðum undir 50 milljónum punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×