Enski boltinn

Balotelli er of upptekinn af samfélagsmiðlum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
"Þessi er á leiðinni beint á Instagram.“
"Þessi er á leiðinni beint á Instagram.“ Vísir/Getty
Fyrrum framherjinn Paulo Di Canio telur að Mario Balotelli sé fótboltamaður á fölskum forsendum. Hann sé atvinnumaður í íþróttinni til þess að öðlast frægð og frama.

Þrátt fyrir að hafa leikið með liðum á borð við Inter og AC Milan, Manchester City og Liverpool hefur Balotelli aldrei tekist að slá í gegn hjá neinu liði. Hefur hann eytt meiri tíma á forsíðum miðlanna vegna atvik utan vallarins en innan hans.

Di Canio sem stýrði Sunderland um tíma sagðist ekki skilja hegðun Balotelli inn á vellinum en Di Canio var þekktur fyrir að gefa ekkert eftir inn á vellinum.

„Á einhverjum tímapunkti verður hann að skilja hvað það þýðir að vera hluti af liði og upplifa góðar og slæmar stundir með liðsfélögum sínum. Það hafa margir þjálfarar reynt að breyta honum til hins betra en án árangurs og hann stendur einn eftir. Hann hefur ótrúlega hæfileika en honum hefur aldrei tekist að notfæra sér þá,“ sagði Di Canio sem sagði Balotelli vera of upptekinn við að verða frægur.

„Sumir leikmenn vilja hanga á boltanum og sýna einhver brögð eða láta leikmenn hlaupa fyrir sig en það virkar ekki þannig. Fótbolti snýst um að fórna sér en hann virðist bara vilja eyða meiri tíma á samskiptamiðlum. Hann virðist nota fótbolta til þess að verða frægur frekar en öfugt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×