Enski boltinn

Aðeins 35 prósent leikmannanna í fyrstu umferðinni voru enskir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Gomez byrjaði inná hjá Liverpool.
Joe Gomez byrjaði inná hjá Liverpool. Vísir/Getty
Enskum leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni heldur áfram að fækka samkvæmt úttekt enska blaðsins The Times en þar skoðaði blaðið hlutfall heimamanna í byrjunarliðunum í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.

Enskir leikmenn voru aðeins rúmlegt þriðjungur byrjunarliðsleikmanna í fyrstu tíu leikjum tímabilsins og það hefur orðið mikil breyting síðan þegar enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar 1992 þegar 69 prósent leikmannanna í byrjunarliðum fyrstu umferðarinnar voru Englendingar.

Tölurnar eru ekki síst sláandi þegar þær eru bornar saman við stöðu heimamanna innan hinna stóru deildanna í Evrópu. Í fyrstu umferð spænsku deildarinnar í fyrra voru 58 prósent byrjunarliðsmanna spænskir leikmenn og 56 prósent leikmanna í byrjunarliðunum í fyrstu umferð þýsku deildarinnar voru Þjóðverjar.

Tölurnar yfir þátttöku heimamanna voru aðeins lægri í Frakklandi (48 prósent) og á Ítalíu (43 prósent) en samt mun hærri en í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Enska 21 árs landsliðið tók þátt í úrslitakeppni EM í sumar en aðeins fjórir leikmanna þess liðs voru í byrjunarliðum sinna liða í fyrstu umferðinni eða þeir Jack Butland (Stoke), John Stones (Everton), Matt Targett (Southampton) og Harry Kane (Tottenham).

Liverpool (6 enskir leikmenn) og Manchester United (5) voru með flesta enska leikmann af stóru liðunum í deildinni og Liverpool var eina liðið í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar sem tefldi fram tveimur enskum táningum en það voru þeir Joe Gomez og Jordon Ibe. Hinir táningarnir í byrjunarliðum fyrstu umferðarinnar voru þeir Brendan Galloway (Everton), Matt Targett (Southampton) og Reece Oxford (West Ham).

Nýliðar Bournemouth var með flesta enska leikmenn í fyrstu umferðinni eða átta en Crystal Palace notaði sjö Englendingar og liðin tvö úr Bítlaborginni, Everton og Liverpool, voru með sex hvor.

Arsenal, Newcastle og Watford voru hinsvegar bara með einn enskan leikmann í fyrsta leik.

Greg Dyke, yfirmaðurinn í enska knattspyrnusambandinu, hefur talað um að takmarka fjölda erlenda leikmanna í ensku úrvalsdeildinni en hefur mætt mikilli andstöðu frá félögunum sjálfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×