Enski boltinn

Bolton-menn sakna Eiðs Smára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar einu af mörkum sínum fyrir Bolton á síðustu leiktíð.
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar einu af mörkum sínum fyrir Bolton á síðustu leiktíð. Vísir/Getty
Neil Lennon, kvartaði yfir framherjum Bolton, eftir að liðið datt út fyrir C-deildarliði Burton í enska deildabikarnum í gær.

Burton vann leikinn 1-0 en spilað var á heimavelli Bolton-liðsins. Bolton-liðið hefur ekki enn skorað á tímabilinu þrátt fyrir að vera búið að spila 180 mínútur og fyrstu tvo leiki sína á heimavelli.

Eiður Smári Guðjohnsen spilaði í framlínu Bolton síðari hluta síðustu leiktíðar en ákvað síðan að semja við kínverskt lið.

Eiður Smári skoraði 5 mörk og gaf 2 stoðsendingar í 21 leik með Bolton í ensku b-deildinni í fyrra.

Bolton-liðið saknar yfirvegun og reynslu íslenska framherjans ef marka má orð knattspyrnustjórans Neils Lennon eftir tapleikinn í gær.

„Ég get víst ekki skorað fyrir þá þótt ég vildi það," sagði Neil Lennon við BBC og skaut á framherja sína Zach Clough og Gary Madine.

„Þeir verða að bæta færanýtingu sína sem fyrst. Við þurfum meiri ró frá þeim fyrir framan markið því þeir eru betri en þetta," sagði Lennon og bætti við:

„Ég er að tala um þá Zach og Gary. Gary klikkaði meðal annars fyrir opnu marki og ég skil bara ekki hvernig hann fór af því," sagði Lennon.

Bolton gerði markalaust jafntefli við Derby í fyrstu umferð ensku b-deildarinnar á laugardaginn en næsti leikur liðsins er á móti  Middlesbrough á útivelli um næstu helgi. Þremur dögum síðar er liðið aftur á útivelli en þá gegn toppliði MK Dons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×