Enski boltinn

Rafael: Van Gaal hafði lítið álit á mér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rafael og van Gaal áttu ekki samleið.
Rafael og van Gaal áttu ekki samleið. vísir/getty
Rafael da Silva segir að Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi ekki haft mikið álit á sér sem leikmanni.

Rafael var aðeins sex sinnum í byrjunarliði United í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en hann var seldur til franska liðsins Lyon í síðustu viku.

„Honum líkaði ekki við mig en ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég er brasilískur,“ sagði Rafael en van Gaal hefur ekki alltaf átt gott með að vinna með brasilískum leikmönnum.

Hjá Barcelona átti hann í útistöðum við Rivaldo og Giovanni en sá síðarnefndi líkti van Gaal einu sinni við Hitler. Eitt af fyrstu verkum Hollendingsins þegar hann kom til Bayern München var svo að selja miðvörðinn Lucio.

„Ég veit af sögusögnum þess efnis að hann sé ekki hrifinn af brasilískum leikmönnum en ég get ekki fullyrt um það,“ sagði Rafael sem ber Sir Alex Ferguson vel söguna en hann átti sitt besta tímabil undir hans stjórn fyrir tveimur árum.

„Tímabilið 2012-13 spilaði ég nánast alla leiki. Það var besta tímabilið mitt hjá United og við urðum líka meistarar þá. Eftir það urðu stjóraskipti. Það var áfall fyrir mig. Mér hafði gengið vel en það breyttist þegar Ferguson hætti,“ sagði brasilíski bakvörðurinn og bætti því við að Ferguson hafi hringt í sig og óskað sér góðs gengis hjá Lyon eftir að félagaskiptin gengu í gegn.

Rafael lék sinn fysta deildarleik fyrir Lyon gegn Lorient um síðustu helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×